357 manns óskuðu eftir því að fá að taka hænu í fóstur hjá Júlíusi Má Baldurssyni, landnámshænubónda í Þykkvabæ, eftir umfjöllun fjölmiðla um Brúnegg í síðustu viku.
Hann hefur hins vegar bara tök á því að taka við um 25 manns til viðbótar við þá 75 sem fyrir voru með hænu í fóstri hjá honum. Öðrum, yfir 300 manns, býðst því að fara á biðlista eftir hænu. Með því að taka hænu í fóstur getur fólk vænst þess að fá eitt kíló af eggjum frá hænunni í hverjum mánuði.
Ástæðan er fyrst og fremst Kastljós-þáttur sem sýndur var í síðustu viku þar sem fjallað var um fordæmalaus afskipti Matvælastofnunar af eggjabúum Brúneggja. Júlíus segir í bréfi sem hann sendi öllum þeim sem óskuðu eftir að taka hænu í fóstur að báðir símar hans hafi hringt viðstöðulaust eftir þáttinn og tölvupóstarnir hafi verið mörg hundruð. „Fólk var hreinlega bara í losti og áfalli sem svo snérist upp í réttláta reiði. Reiði vegna meðferðar á fuglunum sem og ekki síst reiði að Mast skildi leyna þessu í allan þennan tíma,“ skrifar hann meðal annars. Hann tekur einnig fram að allt horfi til betri vegar á búunum og þessi meðferð á dýrum sé ekki til staðar í dag. Það sé léttir, þó hann sé ekki að afsaka fyrri meðferð.
Í þættinum kom fram að Brúnegg hefði, að mati stofnunarinnar, blekkt neytendur árum saman með því að notast við merkingar sem héldu því fram að eggjaframleiðsla fyrirtækisins væri vistvæn og að varphænur þess væru frjálsar. Í krafti þess kostuðu eggin um 40 prósent meira en þau egg sem flögguðu ekki slíkri vottun.
Kastljós fékk aðgang að gögnum um afskipti Matvælastofnunnar af Brúneggjum og í þeim kom í ljós að stofnunin hefur í tæpan áratug haft upplýsingar um að Brúnegg uppfyllti ekki skilyrði sem sett voru fyrir því að merkja vörur sem vistvænar. Það væri því að blekkja neytendur. Atvinnuvegaráðuneytið hafði líka þessar upplýsingar, en neytendum var ekki greint frá þeim.
Fyrir ári síðan hafi staðið til að taka yfir vörslu á hænum Brúneggja vegna ítrekaðra brota á lögum um meðferð dýra, meðal annars með því að vera með allt of marga fugla í eggjahúsum. Til að koma í veg fyrir vörslusviptinguna þurftu Brúnegg að slátra um 14 þúsund fuglum.