Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, segir það blasa við að Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, hafi verið vanhæfur til að dæma í málum þeirra manna sem stýrðu íslensku bankakerfi fyrir hrun. Ástæðan sé sú að hann hafi átt hlut í Glitni og hafi tapað á falli bankans. Jón Steinar segir það ekki vera trúverðugt að maður sem sé hluthafi í banka sem sé til umfjöllunar í máli dæmi í slíku máli. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.
Jón Steinar hefur lengi gagnrýnt Hæstarétt, og sérstaklega Markús. Hann skrifaði m.a. bók þar sem hann sagði til að mynda frá því meirihluti Hæstaréttar hafi beitt sér gegn því að Jón Steinar kæmi inn í réttinn, en hann var skipaður dómari í Hæstarétt í lok september 2004. Hann sagði í Kastljósi í kvöld að það væri alveg rétt að hann hefði gagnrýnt íslenska dómskerfið, en að hann ýtti þeim skoðunum sínum til hliðar þegar hann kemst að þeirri ástæðu að augljóst sé að Markús sé vanhæfur.
Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, hefur sagt að ekkert bendi til vanhæfis Markúsar. Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, sagði í fréttum RÚV í gær að hann teldi Markús ekki vera vanhæfan.
Stöð 2 og Kastljós fjölluðu um hlutafjáreign og mögulegt vanhæfi dómara í Hæstarétti á mánudag. Markús Sigurbjörnsson sendi frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunarinnar í gær, þriðjudag. Í yfirlýsingunni kom fram að hann hafi fengið arf eftir móður sína árið 2002, sem hafi meðal annars falist í hlutdeild í hlutabréfum í Eimskip, Flugleiðum og Íslandsbanka. Hann hafi fengið leyfi nefndar um dómarastörf til að eignast hlutabréfin. „Ég tilkynnti síðan nefndinni með bréfi 11. desember 2003 að ég hefði selt hlutabréfin í Hf. Eimskipafélagi Íslands og Flugleiðum hf. og með bréfi 28. febrúar 2007 að ég hefði selt hlutabréfin í Glitni banka hf.“
Eftir sölu hlutabréfanna hafi hann sett andvirði þeirra að stærstum hluta í eignastýringu hjá Glitni, „þar sem því var á grundvelli samnings um þá þjónustu meðal annars ráðstafað til að kaupa hlutdeildarskírteini í ýmsum verðbréfasjóðum, sem bankinn bauð almenningi. Hvorki átti ég samkvæmt lögum nr. 15/1998 né reglum nr. 463/2000 að tilkynna nefnd um dómarastörf um kaup á slíkum hlutdeildarskírteinum, enda varð ég ekki með þeim eigandi að hlut í félagi.“