Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, hefur stefnt íslenska ríkinu en málið var þingfest í síðasta mánuði og hefur ríkislögmaður frest til að skila greinargerð í málinu til 17. janúar á næsta ári.
Þetta kemur fram í grein Hreiðars Más í Fréttablaðinu í dag.
Í blaðinu segir hann að embætti sérstakst saksóknara hafa brotið á sér með lögbrotum í tengslum við hleranir á árinu 2010. „Á árinu 2010 braut Embætti sérstaks
saksóknara lög þegar farsími
minn var hleraður þrátt fyrir að
ég hafi verið ný kominn úr yfirheyrslum
þar sem ég hafði rétt til
að svara ekki spurningum sem beint
var til mín. Til að bíta höfuðið af
skömminni þá hleruðu starfsmenn
Embættis sérstaks saksóknara einnig
samtöl mín við lögmann minn
þar sem við ræddum mál þar sem
rannsókn beindist gegn mér. Það
er heilagur réttur sakaðs manns að
geta leitað sér ráðgjafar lögmanns í
trúnaði en Mannréttindadómstóll
Evrópu hefur nú ákveðið að taka
kæru vegna þessara brota til skoðunar,“ segir Hreiðar Már í grein sinni.
Þá segir hann að Embætti sérstaks saksóknara hafi ákveðið að leita til Héraðsdóms Vesturlands til að fá heimildir til hlerunar. Þetta hafi embættið gert, þrátt fyrir að Embætti sérstaks saksóknara hefði aðsetur í Reykjavík og þeir sem átti að hlera hefðu dvalið í Reykjavík og verið með lögheimili erlendis. „Héraðsdómur Vesturlands er að einu leyti verulega frábrugðinn Héraðsdómi Reykjavíkur og Héraðsdómi Reykjaness. Við Héraðsdóm Vesturlands er einungis einn dómari. Árið 2010 var dómarinn þar Benedikt Bogason, núverandi hæstaréttardómari. Með því að velja Héraðsdóm Vesturlands var Embætti sérstaks saksóknara ekki einungis að velja sér dómstól heldur í raun einnig að velja sér dómara. Ef Embætti sérstaks saksóknara hefði leitað til Héraðsdóms Reykjavíkur hefðu starfsmenn embættisins ekki vitað hvaða dómari fengi málinu úthlutað. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hafði áður en hann tók við því embætti verið Sýslumaðurinn á Vesturlandi. Þá var hann með aðsetur á Akranesi, sem er í umdæmi Héraðsdóms Vesturlands [...] Það var því ákaflega hentugt fyrir Ólaf Þór að beina hlerunarbeiðnum sínum til Benedikts Bogasonar dómara, en þeir höfðu á sama tíma til fjölda ára gegnt embættisstörfum réttarkerfisins á Vesturlandi. Þar áður höfðu þeir stundað nám á sama tíma í lagadeild Háskólans og unnið um tíma saman hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði. Undir rekstri dómsmála sem hafa verið höfðuð á hendur mér hefur komið fram í vitnisburði fyrrum lögreglumanns hjá Embætti sérstaks saksóknara að Benedikt Bogason dómari skáldaði upp þinghald og falsaði skjal þess efnis þegar hann útvegaði lögreglumönnum Embættis sérstaks saksóknara hlerunarúrskurðinn. Ekkert þinghald var haldið, engin gögn voru lögð fram, dómarinn lagði ekkert sjálfstætt mat á hvort nauðsyn væri að hlera símtöl mín og ekkert vitni var að þinghaldinu eins og lög kveða á um,“ segir Hreiðar Már.
Hreiðar Már var í Hæstarétti dæmdur í sex mánaða refsiauka við dóm héraðsdóms í markaðsmisnotkunarmáli bankans sem kveðinn var upp í fyrra, en dómur í málinu féll í október á þessu ári. Með því er heildarrefsing Hreiðars Más komin upp í sex ár, en það er hámarksrefsing í svokölluðum hrunmálum.
Hann hafði áður fengið fimm ára og sex mánaða dóm í Al-thani-málinu svokallaða og í héraði í markaðsmisnotkunarmálinu var Hreiðar fundinn sekur en ekki gerð aukin refsing. Hæstiréttur ákvað aftur á móti að þyngja refsingu hans um sex mánuði og fór heildardómur hans því upp í sex ár.
Fleiri mál eru til umfjöllunar í dómskerfinu sem snúa að Hreiðari Má, meðal annars vegna meinstra innherjasvika og umboðssvika.