Meirihluti félagsmanna í Félagi grunnskólakennara samþykkti nýgerðan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga í atkvæðagreiðslu sem hófst mánudaginn 5. desember og lauk klukkan 16:00 í dag. Þetta kemur fram á vef Kennarasambands Íslands.
Samningurinn gildir til eins árs og felur í sér hækkun á launum um 11 prósent í tveimur skrefum.
Ekki var þó afgerandi meirihluti með samþykkt samningsins en 55 prósent sögðu já en tæplega 43 prósent nei. Kennarar hafa í tvígang fellt samninga sem náðst höfðu fram í viðræðum milli grunnskólakennara og sveitarfélaga.
Á kjörskrá voru 4.521 og var þátttaka ríflega 90 prósent. Samtals sögðu 2.260 já en 1.759 nei.
Samkvæmt útreikningum Félags grunnskólakennara, sem fjallað var um í Speglinum, hækka heildarlaun kennara nokkuð með samningnum. „Meðalheildarlaun eru nú 525 þúsund en verða um 583 þúsund krónur á mánuði samkvæmt útreikningum Félags Grunnskólakennara. Laun almenns grunnskólakennara með tíu ára kennsluferil hækka um tæpar 49 þúsund krónur á mánuði, úr 441 þúsund krónum í 490 þúsund í mars 2017. Byrjunarlaun almenns grunnskólakennara hækka úr 418 þúsundum í 465 þúsund á mánuði, um 46 þúsund. Kennarar sem voru í fullu starfi í desember fá eingreiðslu upp á 204 þúsund, hún á að bæta upp fyrir samningsleysið síðastliðna fimm mánuði. Þeir fá yfirvinnukaup fyrir að sinna gæslu í frímínútum, annaruppbót hækkar lítillega,“ segir í umfjöllun á vef RÚV.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir samninginn nú ákveðinn áfanga en mikilvægt sé þó að halda áfram vinnu við endurskoðun menntakerfisins og launakerfis kennara.