Íslendingar fengu 55 prósent fleiri sendingar frá erlendum verslunum frá í nóvember 2016 en í saman mánuði í fyrra. Á sama tímabili fjölgaði innlendum pakkasendingum um 35 prósent. Af þessu má ráða að íslenskir neytendur séu í meira mæli að kaupa jólagjafirnar sínar í gegnum vefverslanir á netinu, sérstaklega erlendar, í stað þess að versla þær í íslenskum verslunum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Í blaðinu er bend á að innlend fataverslun hafi dregist saman í októbermánuði miðað við árið áður, þrátt fyrir að verð á fötum hafi lækkað um 5,9 prósent. Til viðbótar hefur átt sér stað umtalsverð kaupmáttaraukning og tollar á fatnaði og skóm verið felldir niður.
Netverslun Íslendinga er sífellt að aukast, jafnt innanlands sem erlendis frá. Samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Samtök verslunar og þjónustu og Póstinn í febrúar keyptu 73 prósent Íslendina vörur í gegnum netið tólf mánuðina á undan. Kjarninn greindi frá því í byrjun árs 2015 að 67 prósent landsmanna höfðu verslað á netinu á árinu 2014 samanborið við 57,6 prósent árið áður.
Þrátt fyrir afnám tolla og vörugjalda og mikla kaupmáttaraukningu á Íslandi þá virðast Íslendingar samt sem áður velja að versla mikið erlendis. Sú verslun fer ekki bara fram í gegnum netið. Margar af stærstu fataverslunum heims senda til að mynda ekki vörur beint til Íslands. H&M, sem mun opna verslanir á Íslandi á næsta ári, er t.d. þegar með um fjórðungsmarkaðshlutdeild í fatakaupum Íslendinga, samkvæmt tölum frá Meniga, þrátt fyrir að engin slík verslun sé rekin hérlendis sem stendur.
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, sem segir að það sé ekkert nýtt að íslensk verslun eigi í harðri samkeppni við erlenda. Bæði sé netverslun að aukast og svo sé það freisting að kaupa varning erlendis frá þegar krónan hefur styrkst jafn mikið og raun ber vitni gagnvart helstu erlendu gjaldmiðlum.
Styrking krónunnar gagnvart evru er um 16 prósent á síðasta ári og gagnvart Bandaríkjadal hefur hún verið rúmlega 14 prósent. Mest hefur styrkingin verið gagnvart pundinu eða tæplega 30 prósent en eftir Brexit kosninguna í júní hefur pundið veikst verulega gagnvart helstu viðskiptamyntum heimsins. Pundið kostaði 206 krónur fyrir rúmlega ári en kostar nú rúmlega 140 krónur.