Ný könnun sem Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) hafa gert meðal aðildarfyrirtækja sinna varpar ljósi á versnandi rekstrarhorfur fyrirtækja í greininni. Frá þessu er greint í ViðskiptaMogganum í dag en samkvæmt könnuninni telja forsvarsmenn um fjórðungs þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni að rekstrarafkoman verði við núllið eða neikvæð á þessu ári. Í sambærilegri könnun í fyrra var þetta hlutfall um 17 prósent, að því er segir í frétt ViðskiptaMoggans.
Í samtali við ViðskiptaMoggann í dag segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, að könnunin komi ekki á óvart, margt í ytri aðstæðum ferðaþjónustunnar reyni á þessi misserin. Á sama tíma og ferðamönnum fjölgar ár frá ári séu rekstrarskilyrði greinarinnar ekki að batna heldur þvert á móti. Bendir hún á að krónan hefur styrkst um 16 prósent það sem af er þessu ári, sé miðað við meðaltalið gagnvart evru og Bandaríkjadal. „Á sama tíma hefur ársbreyting launa til hækkunar verið um tíu prósent. Könnunin gefur til kynna að þessir þættir séu að saxa meira og meira á afkomuna,“ segir Helga í viðtali við ViðskiptaMoggann.
Gert er ráð fyrir því í spám að metfjöldi ferðamanna muni heimsæki landið á þessu ári, enn eitt árið í röð. Vöxturinn hefur verið stanslaust frá árinu 2010 en þá komu 454 þúsund erlendir ferðamenn til landsins en á þessu ári er gert ráð fyrir að þeir verði 1,7 milljónir. Spár greinenda gera ráð fyrir að þeir verði 2,2 milljónir á næsta ári.