Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefur sagt sig úr stjórn Nýherja og slitið á tengsl við Talnakönnun, sem hann stofnaði sjálfur árið 1984. Útgáfufélagið Heimur er dótturfélag Talnakönnunar. Hann gerir þetta til að forðast hagsmunárekstra, „raunverulega eða hugsanlega“, í starfi sínu sem þingmaður.
Börn Benedikts og konu hans hafa keypt rekstur Talnakönnunar. Steinunn Benediktsdóttir hefur tekið við sem framkvæmdastjóri Talnakönnunar og Jóhannes Benediktsson verður framkvæmastjóri Heims nú um áramótin.
Í færslu á Facebook síðu sinni segir Benedikt að það hafi verið ánægjulegt að taka þátt í starfi Nýherja til áratuga, og rekstur þess sé nú á góðri brauti. „Fyrir viku sagði ég mig úr stjórn Nýherja. Ég var fyrst kosinn í þá stjórn árið 1995 og hafði engan áhuga á því, en lét tilleiðast því að ég vildi ekki neita Árna Vilhjálmssyni prófessor, sem ég ég leit mikið upp til. Svo fór að eftir eitt ár var ég orðinn formaður stjórnar, en naut þeirra forréttinda að vinna með Árna meðan hann lifði. Hann var einstakur maður, hafði mikla þekkingu og sterkar skoðanir á rekstri. Mikill prinsippmaður. Við töluðum saman nærri vikulega allan þennan tíma meðan hann lifði, en hann dó vorið 2013.
Í Nýherja hef ég kynnst mörgu góðu fólki, forstjórum, stjórnarmönnum og starfsmönnum og kveð fyrirtækið með hlýjum huga. Á 22 árum tæpum hefur fyrirtækið gerbreyst, stundum staðið tæpt en nú er góður gangur og framtíðin virðist björt,“ segir Benedikt í færslu sinni.
Þá segir hann ennfremur að útgáfufélagið Heimur, sem sinnir meðal annars útgáfu tímaritanna Frjáls verslun, Iceland Review og Ský, hafi verið farvegur fyrir áhuga hans á blaðaútgáfu. „Í dag sagði ég svo upp starfi mínu sem framkvæmdastjóri í Talnakönnun sem ég stofnaði árið 1984 og hefur verið hluti af mér meirihluta ævinnar. Þaðan á ég margar ljúfar minningar, allt frá því að ég var einn að stússa á gömlu Apple II E vélina í litla herberginu heima í Skaftahlíð. Í þessu starfi hef ég kynnst fólki í viðskiptalífinu, stjórnmálum og félagsstarfi af ýmsu tagi. Það eru forréttindi að hafa fengið að vinna jafnmörg og skemmtileg verkefni og raun ber vitni á nærri aldarþriðjungi. Samstarfsmenn og viðskiptavinir hafa lífgað upp hjá mér tilveruna. Útgáfufélagið Heimur er dótturfélag Talnakönnunar og það hefur verið útrás fyrir áhuga minn á blaðaútgáfu, sem kviknaði þegar ég gaf fyrst út Íþróttamanninn með æskuvinum mínum árið 1966.
Við hjónin höfum ákveðið að selja börnum okkar fyrirtækið og Steinunn Benediktsdóttir tekur við sem framkvæmdastjóri Talnakönnunar og Jóhannes Benediktsson sem framkvæmdastjóri Heims nú um áramótin. Ég óska þeim og starfsmönnum alls hins besta og þakka fyrir farsæla vegferð,“ segir Benedikt að lokum.