97 prósent landsmanna sem taka afstöðu eru sáttir við störf Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Stöð 2 og Fréttablaðið létu framkvæma og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Sú lita óánægja sem mælist með störf forsetans mælist helst í Suðurkjördæmi og hjá kjósendum Flokks fólksins. Í báðum tilfellum eru þó einungis um fimm prósent aðspurðra ósáttir við störf Guðna sem forseta Íslands.
Guðni Th. tók við embætti forseta Íslands 1. ágúst síðastliðinn. Hann var kjörinn forseti með 39 prósent greiddra atkvæða. Í aðdraganda forsetakosninga hafði fylgi hans mælst mun hærra, og mældist hann meðal annars með tæplega 70 prósent fylgi í þremur könnunum í röð.
Hann hefur verið mikið í sviðsljósinu að undanförnu í kjölfar þess að erfiðlega hefur gengið að mynda ríkisstjórn. Alls hafa forsvarsmenn þriggja stjórnmálaflokka fengið stjórnarmyndunarumboð og reynt að mynda nýja ríkisstjórn, án árangurs. Sem stendur er enginn með umboðið en búist er við að forsetinn muni grípa til einhverra aðgerða í næstu viku og færa nýjum aðila umboð til að mynda stjórn.
Hér er hægt að lesa tíu staðreyndir um Guðna Th.sem Kjarninn tók saman í tilefni þess að hann tók við embætti forseta í sumar.