Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks og fyrrverandi forsætisráðherra, greiddi síðast atkvæði um mál í þingsal Alþingis 8. júní síðastliðinn. Eftir að hann sagði af sér sem forsætisráðherra í byrjun apríl og varð óbreyttur þingmaður tók hann aldrei sæti í neinni nefnd á vegum þingsins, og sinnti þar af leiðandi ekki nefndarstörfum líkt og aðrir almennir þingmenn gera. Sigmundur Davíð greiddi atkvæði með ýmsum málum þann 2. júní, meðal annars með breytingum á lögum um gjaldeyrismál og með banni á verkfall flugumferðarstjóra. Hann greiddi svo atkvæði með frestun á fundum Alþingis 8. júní, en þeim var þá frestað fram í miðjan ágúst. Síðan hefur hann ekki tekið þátt í einni einustu atkvæðagreiðslu á þinginu. Þetta er hægt að sjá á vef Alþingis.
Sigmundur Davíð hefur verið með skráða fjarvist í einni atkvæðagreiðslu sem fram hefur farið á Alþingi frá 8. júní. Það var í atkvæðagreiðslu um rammaáætlun þann 14. september 2016. Í öðrum atkvæðagreiðslum hefur hann einfaldlega verið fjarverandi. Tugir mála hafa verið til atkvæðagreiðslu á þessu tímabili. Atkvæðagreiðslurnar sjálfar eru mörg hundruð. Sigmundur Davíð er eini þingmaðurinn sem hefur ekki mætt á þingfundi á þessu kjörtímabili.
Þingmönnum er skylt að sækja þingfundi
Samkvæmt vefnum thingmenn.is, sem tók saman ýmsa tölfræði um þingmenn á síðasta kjörtímabili, mætti Sigmundur Davíð næst verst allra þingmanna í atkvæðagreiðslur. Hann tók einungis þátt í 56,7 prósent þeirra. Sá eini sem mætti verr en Sigmundur Davíð var Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna. Hann mætti í 52,5 prósent atkvæðagreiðslna.
Í 65. grein þingskapalaga segir: „Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.“ Þar segir einnig að ef þingmaður forfallist svo að nauðsyn krefji skuli varamaður taka sæti hans. Sigmundur Davíð hefur ekki kallað inn varamann fyrir sig í fjarveru sinni. Í 78. grein sömu laga segir að þingmanni sé skylt „að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi“.
Gekk út úr viðtali
Sigmundur Davíð var spurður út í fjarveru sínaúr þingsal af fréttamanni RÚV síðastliðinn föstudag. Aðspurður um af hverju hann hefur ekki mætt í vinnuna gerði Sigmundur Davíð athugasemd við nálgun fréttamanns RÚV á viðtalið við hann. Þegar fréttamaður sagði að sér þætti það eðlileg spurning að spyrja í ljósi þess að hann hefði ekkert mætt í vinnuna. „Þá geturðu beðið mig um viðtal um það. Þú kemur ekki hingað og biður mig um viðtal um afmæli flokksins og kemur með svona útúrsnúninga eins og þetta.“ Í hádegisfréttum RÚV var tekið fram að aldrei hafi samið um að einungis yrði spurt út í 100 ára afmæli flokksins í viðtalinu. Sigmundur Davíð féllst loks á að svara spurningunni ef hún yrði umorðuð.
Þá sagðist hann hafa fylgst vel með þingfundum og gangi mála á þeim, eins og aðrir þingmenn. Þegar fréttamaður RÚV benti á að aðrir þingmenn hefðu mætt í þingsal svaraði hann: „Voðaleg reiði er þetta í Ríkisútvarpinu og sérstaklega þér í minn garð. Ég hef fylgst með umræðum í þinginu og störfunum þar eins og aðrir þingmenn. Segjum þetta gott.“ Í kjölfarið sleit hann viðtalinu og gekk í burtu.
Í gær birti Sigmundur Davíð stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann ásakaði ótilgreindan SDG-hóp á RÚV að vera með þráhyggju gagnvart sér og að hún væri að ágerast.
Sigmundur Davíð sagði enn fremur að þingmenn vinni við fleira en að sitja í þingsal. „Sem betur fer því að jafnaði sitja tveir til þrír menn í salnum. Þingmenn eiga að fylgjast með þingfundum eins og kostur er en einnig að hitta fólk, kynna sér mikilvæg mál, sinna flokknum sínum, kjósendum og öðrum landsmönnum.“