Breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe, sem er númer 230 á lista Forbes yfir ríkasta fólk í heiminum, hefur keypt stóran eignarhlut í Grímsstöðum á fjöllum. Fram kemur í tilkynningu frá honum að hann kaupi jörðina til að vernda laxveiðiár á Norðausturlandi, að því er segir í frétt RÚV.
Eignir Ratcliffe eru metnað á 6,8 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 800 milljörðum króna. Eignir hans eru að miklu leyti bundnar í meirihlutaeign í efnaframleiðslustórveldinu Ineos Group.
Eins og komið hefur fram í fréttum, meðal annars fréttum Austurfrétta, hefur Ratcliffe keypt þrjár jarðir í Vopnafirði en þar eru grenndinni gjöfular laxveiðiár, Selá og Hofsá þar á meðal.
„Fram kemur í tilkynningunni frá Ratcliffe að á Grímsstöðum sé vatnasvið mikilvægra laxveiðáa á Norðausturlandi og að kaupin á landinu sé þáttur í því að venda villta laxastofna við Atlantshaf. Íslenska ríkið á enn hluti í jörðinni og einnig nokkrir aðrir landeigendur,“ segir frétt RÚV.
Kínverjinn Huang Nubo áformaði að kaupa Grímsstaði fyrir rúman milljarð, byggja þar upp ferðaþjónustu en ekkert varð úr því. Miklar pólitískar deilur urðu um áform Nubo og skók málið ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, var kaupunum mjög mótfallin ásamt mörgum fleirum, þvert á flokka.
Grímsstaðir voru auglýstir til sölu í október og var ásett verð 780 milljónir, en á undanförnum árum hafa Grímsstaðir oft verið auglýstir til sölu.
Skýrt er tekið fram í tilkynningunni frá Ratcliffe að vendun umhverfis sé eini tilgangurinn með landakaupum hans á Norðausturlandi og að hann vilja vinna með bændum að því að vernda árnar og tryggja áframhaldandi landbúnað á sama tíma.