Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni á jólamarkaðinn í miðborg Berlínar í gær, þar sem tólf fórust og 48 slösuðust, þegar vöruflutningabifreið var ekið í gegnum mannmergð á jólamarkaði í miðborginni. Frá þessi greindi breska ríkisútvarpið BBC í dag.
Samtökin, lýstu því yfir í gegnum fréttaveitu sína Amaq, að vígamaður samtakanna hefði ekið flutningabílnum, sem stolið var af pólsku flutningafyrirtæki fyrr um daginn, en starfsmaður pólska fyrirtækisins, sem ók bifreiðinni áður en henni var rænt, var einn drepinn.
Ekki kom fram í yfirlýsingunni hver árásarmaðurinn væri, en lögregluyfirvöld í Þýskalandi létu síðdegis í dag lausan mann sem þau höfðu í haldi vegna árásarinnar. Ástæðan var sú að sannanir skorti til að geta haldið honum lengur. Hann hefur alfarið hafnað því að tengjast verknaðinum.
Minningarstund fór fram í Þýskalandi í dag, vegna voðaverkanna, og tóku allir helstu stjórnmálamenn og leiðtogar Þýskalands þátt í henni, þar á meðal kanslarinn Angela Merkel. Hún hefur sagt að allt verði gert til upplýsa og rannsaka atburðinn, og draga þá til ábyrgðar sem stóðu fyrir fjöldamorðinu.