Ráðherranefnd um efnahagsmál hefur ákveðið að fela sérfræðingum úr forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti að greina stöðuna í íslensku efnahagslífi með tilliti til styrkingar krónunnar og vaxandi hættu á ójafnvægi í hagkerfinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Sérfræðingar ráðuneytanna eiga að koma með tillögur til að stemma stigu við þensluhættu og þeirri hættu sem steðjar að samkeppnishæfni þjóðarbúsins, segir í tilkynningunni. Þeir munu á næstu vikum funda með hagsmunaaðilum til að varpa sem bestu ljósi á aðstæður og fá þeirra hugmyndir að úrbótum. Tillögurnar eiga að nýtast ráðherranefndinni meðal annars í umræðum um samstillingu hagstjórnar í Þjóðhagsráði.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra sitja í ráðherranefndinni um efnahagsmál.
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að styrking krónunnar sé til marks um bætta stöðu Íslands. „Mikil spurn er eftir íslenskum vörum og þjónustu sem styrkir gengið og gerir Ísland að dýrari kosti. Þessi staða kallar á gamalkunnar hættur og krefst mikils aga í hagstjórn. Styrking krónunnar og veruleg hækkun launa setur útflutningsatvinnuvegi í vanda og rýrir samkeppnishæfni hagkerfisins. Hin jákvæðu skilyrði sem leika nú umefnahagslífið geta því fljótt snúist upp í anhverfu sína. Þetta er mikilvægt að greina vel þegar líður að næstu skrefum í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta.“
Gengið styrkst gríðarlega
Gengi krónunnar hefur styrkst mikið að undanförnu gagnvart helstu viðskiptamyntum heimsins. Gengi krónunnar gagnvart evrunni hefur styrkst um ríflega 17 prósent á þessu ári, og um fjögur prósent á undanförnum mánuði. Evran kostar nú 118,5 krónur en fyrir rúmlega ári kostaði hún 150 krónur og um mitt ár 2014 154 krónur.
Leita þarf aftur til fyrrihluta árs 2008 til að finna sterkari stöðu krónunnar gagnvart evru heldur en nú er. Í júlí 2008 kostaði evran 129 krónur en í febrúar kostaði hún 98 krónur. Eftir fall krónunnar í marsmánuði 2008 var evran komin í 122 krónur og veiktist krónan svo jafnt og þétt fram að stjórnlausu falli hennar eftir hrun bankanna, í október 2008, og setningu fjármagnshafta með lögum í nóvember sama ár. Þá kostaði krónan 182 krónur.
Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal hefur einnig styrkst nokkuð en hann kostar nú 114 krónur, en fyrir ári kostaði hann 136 krónur.
Kjarninn fjallaði nýlega ítarlega um stöðuna í íslensku hagkerfi, og lesa má þá fréttaskýringu hér.