Embætti ríkissaksóknara í Þýskalandi birti í dag nafn manns frá Túnis sem leitað er vegna árásarinnar í Berlín í fyrradag, þegar flutningabifreið var ekið inn í mannmergð á jólamarkaði. Tólf létu lífið og 48 særðust, þar af margir alvarlega.
Einnig var heitið peningaupphæð, 100 þúsund evrum, fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku mannsins.
Samkvæmt tilkynningu frá saksóknaraembættinu heitir maðurinn Anis Amri og er tuttugu og fjögurra ára. Hann er talinn geta verið hættulegur og vopnaður.
Greint var frá því fyrr í dag að skilríki mannsins hefðu fundist í flutningabifreiðinni sem notuð var í árásinni á jólamarkaðinn. Yfirvöld í Þýskalandi voru búin að fylgjast með manninum og skiptast á upplýsingum um hann á þessu ári, vegna gruns um áform um hryðjuverk.
Maðurinn hefur dvalið í Þýskalandi undanfarna mánuði en kom til Ítalíu frá Túnis árið 2011 og bjó þar í þrjú ár, áður en hann fór til Þýskalands.