Plain Vanilla hefur náð samkomulagi við bandaríska fyrirtækið Glu Mobile um að selja QuizUp leikinn til þess. Heildarvirði samningsins er um 7,5 milljónir dala, um 850 milljónir króna, en kaupverðið er að hluta greitt með uppgjöri skulda milli fyrirtækjanna tveggja.
Í tilkynningu vegna þessa segir að starfsmenn beggja fyrirtækja hafi að undanförnu unnið hörðum höndum að yfirfærslu leiksins og hefur teymi frá Glu starfað að því verkefni í höfuðstöðvum Plain Vanilla að Laugavegi 77. „Í kjölfar sölunnar munu Plain Vanilla Corp. í Bandaríkjunum og Plain Vanilla á Íslandi hætta rekstri en félögin standa skil á öllum skuldbindingum við starfsmenn sína og lánardrottna.“
Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi og fráfarandi forstjóri Plain Vanilla, segir að QuizUp hafi verið ótrúlegt ævintýri. „Á annað hundrað Íslendingar hafa fengið mikilvæga reynslu í gegnum störf sín hjá fyrirtækinu sem náði ótrúlega langt í þessum harða iðnaði. Einnig tókst okkur að búa til einn eftirsóttasta og skemmtilegasta vinnustað á Íslandi sem lifa mun í minningu allra þeirra sem þar störfuðu. Ég er mjög þakklátur öllu starfsfólki, samstarfsaðilum og fjárfestum sem komið hafa að þessu verkefni síðastliðin fimm ár. Þó að það sé erfitt að sjá á eftir barninu okkar til Bandaríkjanna þá erum við um leið spennt fyrir því sem er framundan. Þá vona ég að Glu Mobile haldi uppi merkjum QuizUp með sóma og ég hef verið fullvissaður um að það hyggist fyrirtækið gera.“
NBC hætti við að framleiða spurningaþætti
Þann 31. ágúst síðastliðinn var tilkynnt um að Plain Vanilla myndi loka. Öllu starfsfólki, þá 36 manns, var sagt upp störfum sama dag.
NBC, sem ætlaði að framleiða spurningaþætti undir nafninu QuizUp, hafði hætt við framleiðsluna og rekstrarforsendur brustu til frekari fjármögnunar og þróunar á fyrirtækinu hér á landi. Vonir höfðu staðið til að reksturinn yrði sjálfbær þegar notendum fjölgaði samhliða áætlaðri frumsýningu þáttarins.
Fyrirtækinu var svo tilkynnt um það síðla í ágúst að NBC hefði hætt við þættina. Það kom flestum að óvörum, samkvæmt heimildum Kjarnans, enda hafði fyrirtækið þegar pantað þrettán þætti og búið var að vinna mikla vinnu í sambandi við þá. Búið var að ákveða frumsýningardag og finna þættinum stað í dagskrá stjónvarpsstöðvarinnar, klukkan 19 á sunnudagskvöldum frá og með 5. mars næstkomandi.