Stefán Eiríksson hefur verið ráðinn í starf borgarritara. Stefán var lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2007 og þar til hann tók við starfi sem sviðsstjóri velferðarsviðs 1. september 2014. Borgarritari er æðsti embættismaður borgarinnar að undanskildum borgarstjóra og einn af staðgenglum hans. Stefán var talinn uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til borgarritara. Frá þessu er greint á vef Reykjavíkurborgar.
Fráfarandi borgaritari er Ellý Katrín Guðmundsdóttir. Hún hefur gegnt starfinu frá október 2011.
Borgarritari hefur yfirumsjón með miðlægri stjórnsýslu og stoðþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar. Í því felst yfirumsjón með fjármálum, hagmálum, innkaupamálum, mannauðsstjórnun, upplýsingatæknimálum og þjónustumálum Reykjavíkurborgar og frumkvæði að stefnumótun á þessum sviðum.
Alls sóttu 17 manns um starfið. Umsækjendur voru: Ásta Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri, Birgir Finnbogason, endurskoðandi, Elínrós Líndal, forstöðumaður, Finnur Þ. Gunnþórsson, aðstoðarforstöðumaður, Gunnhildur Gunnarsdóttir, lögfræðingur, Halla S. Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri, Hallur Magnússon, framkvæmdastjóri, Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri, Ingimar Þór Friðriksson, forstöðumaður, Magnea Hrönn Örvarsdóttir, blaðamaður, Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri , Pétur T. Gunnarsson, rekstrarráðgjafi, Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri, Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri, og Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur, og Stefán, sem hreppti starfið.
Á árunum 2002- 2006 starfaði Stefán sem skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytis, á árunum 2007-2014 sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og frá 2014 sem sviðsstjóri velferðarsviðs. Stefán lauk embættisprófi í lögfræði (Cand.jur) frá Háskóla Íslands í febrúar 1996 og hdl. 1997 og hefur hann sótt fjölda námskeiða, sinnt kennslu í lögfræði á háskólastigi og verið fyrirlesari á ýmsum vettvangi, m.a. í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.