Stjórnmálamenn eiga að taka sig til milli jóla og nýárs að vinna að myndun nýrrar ríkisstjórnar, segir Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Þetta kom fram í viðtali við Guðna á vef RÚV.
Hann segist í viðtalinu, leyfa sér að vera bjartsýnn á stjórnarmyndun á næstu viku til tíu dögum. „Ég yrði nú illa svikinn finnst mér ef línur hefðu ekki skýrst vel nú strax eftir jól og kannski þannig að ný ríkisstjórn verði tekin við fyrir áramót,“ segir Guðni.
Þá segir hann að það hafi verið skynsamlegt að leyfa þinginu að ljúka því sem þurfti að ljúka, áður en ný ríkisstjórn var mynduð. Það hafi þingið gert með sóma.
Í þrígang hafa formlegar stjórnarmyndunarviðræður, þar sem leiðtogi stjórnmálaflokks hefur fengið umboð til stjórnarmyndunar, farið út um þúfur. Fyrst þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins fékk umboðið, síðan þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna fékk umboðið, og síðan Birgitta Jónsdóttir, fyrir hönd Pírata. Í tvö seinni skiptin reyndu fimm flokkar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar að ná saman, en allt kom fyrir ekki.
Leiðtogar flokkanna hafa rætt málin sín á milli, samhliða síðustu verkum þingsins á árinu, og býst Guðni við því að ríkisstjórn gæti myndast á næstu viku til tíu dögum, eins og áður sagði.