Allir 92 farþegar rússnesku herþotunnar sem fórst í Svarta hafinu í morgun eru taldir af. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur lýst yfir þjóðarsorg á mánudag vegna slyssins en um borð voru meðal annars þorri Alexandrov-kórsins, kórs Rauða hersins í Rússlandi.
Lík ellefu farþega hafa fundist en engar fregnir eru af eftirlifendum. Vélin hvarf af ratsjám fáeinum mínútum eftir að hún tók á loft frá Sochi, þar sem hún hafði stoppað eftir eldsneyti á leið sinni frá Moskvu til flotastöðvar rússneska hersins í Latakíu í Sýrlandi.
Um borð voru hermenn, fjölmiðlamenn og 64 meðlimir Alexandrov-kórsins heimsfræga. Kórinn átti að syngja á nýársskemmtun fyrir hermenn í flotastöðinni. Af hljóðupptökum úr stjórnklefa flugvélarinnar að dæma virðist ekkert hafa komið upp á áður en vélin hvarf af ratsjám.
Meira en 100 kafarar hafa leitað að flaki vélarinnar og farþegunum, samkvæmt upplýsingum rússneska varnarmálaráðuneytisins. Rússneskum stjórnvöldum er ekki unnt að greina frá því hvað olli því að flugvélin fórst og segja að „allt komi til greina“ í þeim efnum, jafnvel að um væri að ræða hryðjuverk.
Skarð hoggið í frægasta kór í heimi
Alexandrov-kórinn er einn frægasti kór í heimi hefur sungið víða um heim allt frá stofnun. Um er að ræða opinberan kór Rauða hersins sem nefndur er eftir fyrsta stjórnanda hans Alexander Vasilyevich Alexandrov, sem samdi meðal annars þjóðsöng Sovétríkjanna. Kórinn var stofnaður á millistríðsárunum og er af mörgum talinn vera einn besti kór í heiminum, í það minnsta einn sá agaðasti.
Með kórnum skemmta oft dansarar og hljómsveit en þessi kór er sá eini sem getur stært sig af því að vera kór Rauða hersins. Hér að neðan má sjá kórinn flytja Kalinka eftir Ivan Larionov með hljómsveit.