Sigurjón Magnús Egilsson, sem var um tíma ritstjóri allra miðla Hringbrautar, mun láta af störfum hjá fjölmiðlafyrirtækinu eftir rúman mánuð. Hringbraut rekur samnefnda sjónvarpsstöð, útvarpsstöð og heldur úti vefsíðu. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar segist Sigurjón hafa sagt upp störfum 8. ágúst síðastliðinn og að sex mánaða uppsagnarfrestur sé því senn að baki. „Fyrir nokkrum mánuðum hætti ég sem ritstjóri allra miðla Hringbrautar, einsog ég var ráðinn til, og hef síðan verið ritstjóri Þjóðbrautar,“ segir Sigurjón í stöðuuppfærslunni.
Tilkynnt var um ráðningu Sigurjóns til Hringbrautar 19. apríl 2016. Hann starfaði því einungis rúma þrjá mánuði hjá fyrirtækinu áður en hann sagði upp störfum. Áður stýrði hann lengi þættinum Sprengisandi á Bylgjunni, gengdi stjórnunarstöðum á Fréttablaðinu og hélt úti fréttavefnum Miðjan.is.
Um miðjan júlí var greint frá því að fjárfestirinn Jón Von Tetzhnerhefði keypt stóran hlut í Hringbraut. Hann varð við það annar stærsti eigandi fyrirtækisins á eftir Guðmundi Erni Jóhannssyni, stjórnarformanni þess. Auk þeirra tveggja á Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Hringbrautar, hlut í fyrirtækinu. Samkvæmt skráningu á eignarhaldi Hringbrautar á heimasíðu fjölmiðlanefndar, sem er frá því í nóvember í fyrra, er Guðmundur Örn þó enn skráður eigandi alls hlutafjár.