Sýrlensk stjórnvöld og uppreisnarmenn hafa samþykkt vopnahlé í stríðinu í Sýrlandi. Vopnahléið á að taka gildi á miðnætti í Sýrlandi, sem er klukkan tíu í kvöld að íslenskum tíma.
Samkomulagið um vopnahléð var gert með milligöngu Tyrklands og Rússlands, sem styðja ólíkar fylkingar í stríðinu. Ætlunin er að friðarviðræður á milli stjórnvalda og uppreisnarmanna fylgi í kjölfarið í næsta mánuði í Kasakstan. Í þeim viðræðum er áætlað að Rússar, Tyrkir og Íranir taki þátt. Fjarvera Bandaríkjanna er sögð sýna pirring í garð Bandaríkjanna bæði meðal Rússa og Tyrkja.
Þetta er þriðja samkomulagið um vopnahlé á árinu, en það hefur ekki haldið lengi hingað til.
Tyrknesk stjórnvöld segja vopnahléið nú vera mikilvægt skref í átt að lausn á stríðinu. Erdogan Tyrklandsforseti segir það sögulegt tækifæri og ekki ætti að láta það fara til spillis. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að það muni krefjast mikillar athygli að viðhalda vopnahléinu.
Vopnahléið tekur ekki til hryðjuverkasamtaka eins og Íslamska ríkisins og Jabhat Fateh al-Sham, sem er fyrrum armur Al-Kaída í Sýrlandi.