Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, staðfestir að flokkur hennar hafi átt í óformlegum viðræðum við Framsóknarflokk og Samfylkingu um félagslegar áherslur sem flokkarnir þrír geti sameinast um hvort sem er við stjórnarmyndun eða í stjórnarandstöðu. Hún segir ótímabært og ekki við hæfi að svara spurningum um hvort þessir flokkar stefndu á stjórnarmyndarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Frá þessu er greint á mbl.is.
Í Morgunblaðinu í morgun var fullyrt að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Katrín hafi undanfarna daga farið yfir mál og sett punkta á blað sem eigi að vera grundvöllur viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn um ríkisstjórnarsamstarf. Því væru Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn að reyna að gera sig að valkosti fyrir Sjálfstæðisflokk í stjórnarsamstarfi nú þegar formlegar viðræður hans við Viðreisn og Bjarta framtíð um myndun ríkisstjórnar eru langt komnar og búist er við að stjórnarsáttmáli þeirra verði kynntur fyrir vikulok.
Fram til þessa hefur mikill meirihluti þingflokks Vinstri grænna lagst alfarið gegn því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Fréttablaðið greindi hins vegar frá því í morgun að sátt hafi náðst í öllum þeim stóru málum sem steytti á í síðustu tveimur viðræðulotum milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þar segir að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um hvort hefja eigi aðildarviðræður að Evrópusambandinu að nýju og að ákvæði verði í stjórnarsáttmála um að skoðanir ríkisstjórnarflokkanna á málinu séu afar mismunandi. Þeim verði því í sjálfvald sett hvernig þeir greiði atkvæði um þingsályktun um atkvæðagreiðsluna. Samkvæmt þessu mun málið því verða sett til þingsins í formi þingsályktunar og án fulls stuðnings nýrrar ríkisstjórnar. Það mun svo ákveða hvort atkvæðagreiðslan fari fram eður ei.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, staðfesti í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að viðræður flokks hans, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks væru lengra komnar en fyrri stjórnarmyndunarviðræður. Allir flokkarnir hafi gefið eitthvað eftir frá kosninum. Stjórnarsáttmáli væri hins vegar ekki undirritaður enn sem komið er.