Bandaríski bíla- og vélaframleiðandinn Ford hyggst ekki byggja upp starfsemi fyrir 1,6 milljarða Bandaríkjadala í Mexíkó, eins og hann hafði áður tilkynnt um, heldur verður þess í stað byggð upp enn frekari starfsemi í Michigan í Bandaríkjunum.
Mark Fields, framkvæmdastjóri hjá Ford, tilkynnti um þetta í dag, en mikil uppbygging fyrirtækisins í San Luis Potosi í Mexíkó hefur verið slegin af. Þess í stað verður verksmiðja fyrirtækisins í Wayne í Michigan notuð til þess að framleiða næstu kynslóð af Ford Focus bílum fyrirtækisins en með því tekst að vernda um 3.500 störf í Michigan, sem annars hefðu flust til Mexíkó, að því er segir í umfjöllun Bloomberg.
Donald J. Trump, sem brátt tekur formlega við sem forseti Bandaríkjanna, gagnrýndi Ford harðlega í kosningabaráttunni fyrir að flytja störf úr landi og þá einkum til Mexíkó. Hann sagði þetta grafa undan hagkerfi Bandaríkjanna.
Bill Ford, forstjóri Ford, sagðist í dag hafa rætt uppbyggingaráform fyrirtækisins við Mike Pence, varaforsetaefni, en samkvæmt áformum Ford þá ætlar fyrirtækið að fjárfesta fyrir um 700 milljónir Bandaríkjadala, um 80 milljarða króna, til að setja upp framleiðslu sem skapa mun um 700 störf til viðbótar í Michigan.
Frekari uppbygging fyrirtækisins í Mexíkó hefur þó ekki verið útilokuð í framtíðinni, en Ford segist vonast til þess að undir stjórn Trumps muni efnahagur Bandaríkjanna blómstra, og þar með ýta undir frekari vöxt Ford.