Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í viðtali við RÚV í kvöld, ekki reikna með því að leita út fyrir þingflokkinn eftir ráðherraefnum. „Ég sé ekki ástæðu til þess,“ sagði Bjarni í fréttum Ríkisútvarpsins þegar hann var spurður út í málið.
Þingflokkar Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins funda nú í kvöld um stjórnarsáttmála ríkisstjórnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Stjórn Bjartrar framtíðar fundar um málið einnig. Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði í viðtali við Stöð 2 að málefnastaðan í viðræðunum var það sem réði ferðinni, og stjórn Bjartrar framtíðar myndi ræða um alla fleti þessarar stöðu.
Bjarni sagðist stefna að því að kynna ráðherraefnin í ríkisstjórninni annað kvöld.
Hvað ráðherra Sjálfstæðisflokksins varðar liggur einungis fyrir að Bjarni verði forsætisráðherra, en miklar líkur er einnig á því að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, verði fjármála- og efnahagsráðherra.