Sakborningar í Al Thani-málinu svokallaða sendu á föstudag upplýsingar um fjármálaumsvif dómara við Hæstarétt Íslands á árunum fyrir fall íslenska bankakerfisins árið 2008 til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Upplýsingarnar eru hluti af málsskjölum sem Ólafur Ólafsson og þrír fyrrverandi stjórnendur Kaupþings banka, þeir Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson, sendu MDE vegna umfjöllunar dómstólsins um Al Thani málið svokallaða. Telja þeir að brotið hafi verið á réttindum þeirra, bæði við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómstólum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem almannatengslafyrirtækið KOM hefur sent út fyrir þeirra hönd.
Þann 12. febrúar 2015 féll dómur í Al Thani-málinu í Hæstarétti. Þar voru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, sakfelldir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár.
Mennirnir fjórir kærðu niðurstöðuna til MDE m.a. vegna meints vanhæfis þeirra dómara sem dæmdu í málinu. Sú kæra var send í byrjun ágúst 2015.
Í bréfinu sem sent var á föstudag er m.a. bent á nýjar upplýsingar um hagsmunatengsl dómara sem komu fram í umfjöllun íslenskra fjölmiðla í desember síðastliðnum. Í kærunni segir að „Hæstiréttur Íslands hafi sýnt dómgreindarleysi við að meta hugsanlega hagsmunaárekstra í dómsmálum á hendur fyrrverandi stjórnendum þriggja stærstu viðskiptabankanna; Kaupþings, Glitnis og Landsbankans. Í öllum málum hefði verið tekist á um meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik sakborninga og þau því tengd innbyrðis.“
Fréttaflutningur í byrjun desember um dómara
Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 og í Kastljósi 5. desember að Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, hefði átt hlutabréf í Glitni fyrir hrun og síðar fjárfest um 60 milljónum króna í verðbréfasjóði í rekstri Glitnis. Í Kastljósi var enn fremur greint frá því að Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem gegnt hefur embætti hæstaréttardómara frá árinu 2003, hafi einnig átt hlutabréf í Glitni um tíma á árinu 2007. Hann seldi bréf sín í lok þess árs og fjárfesti í verðbréfasjóði innan Glitnis. Í Fréttablaðinu í morgun var svo sagt frá því að hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Ingveldur Einarsdóttir og Árni Kolbeinsson, sem nú er hættur störfum, hafi einnig öll átt hlutabréf í Glitni á árunum 2007 og 2008. Allir dómararnir fimm hafa dæmt í málum sem tengjast Glitni, bæði fyrir og eftir hrun. Þar á meðal eru sakamál gegn starfsmönnum eignastýringar Glitnis. Dómararnir lýstu ekki yfir vanhæfi í neinu þeirra mála.
Gögnin sem birt voru sýndu samskipti Markúsar við eignastýringu Glitnis. Á meðal þeirra voru tölvupóstar og skjöl sem hann undirritaði til að veita heimild til fjárfestingar. Gögnin eru bundin bankaleynd og alls ekki aðgengileg mörgum. Starfsmenn slitastjórnar Glitnis eftir hrun hafa þó mögulega getað flett þeim upp í kerfum bankans auk þess sem starfsmenn eignastýringar Glitnis fyrir hrun gátu nálgast þau.
Markús sendi frá sér yfirlýsingu daginn eftir þar sem hann segist hafa tilkynnt nefnd um dómarastörf um sölu á hlutabréfum í sinni eigu þegar viðskiptin áttu sér stað, og hann hafi fengið leyfi nefndarinnar þegar honum áskotnuðust þau. Hann hafi hins vegar ekki þurft að tilkynna um hvernig hann ráðstafaði peningunum eftir söluna.
Skömmu síðar tilkynnti Hæstiréttur að frá byrjun árs 2017 verði upplýsingar um hagsmunatengsl hæstaréttardómara aðgengilegar á heimasíðu réttarins. Þær upplýsingar hafa nú verið birtar.