Ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar fékk kynningu á siðareglum ráðherra á sínum fyrsta fundi í morgun. Siðareglurnar voru einnig ræddar af ráðherrum á ríkisstjórnarfundinum, en þær gilda áfram fyrir nýja ríkisstjórn nema hún taki ákvörðun um að breyta þeim.
Siðareglurnar sem nú eru í gildi voru settar af Sigurði Inga Jóhannssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, skömmu eftir að hann tók við forsætisráðuneytinu. Þær byggja á siðareglunum sem settar voru í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2011, en þær reglur giltu aðeins út starfstíma ríkisstjórnar Jóhönnu. Í forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar voru siðareglur ráðherra aldrei staðfestar vegna þess að Sigmundur Davíð undirritaði þær ekki og birti. Á meðan svo var höfðu siðareglurnar sem Jóhönnustjórnin setti ekki stjórnsýslulegt gildi. Þetta var mat umboðsmanns Alþingis, en þetta var ástæða þess að hann gat ekki látið í ljós álit sitt á því hvort Sigmundur Davíð hefði brotið gegn siðareglum ráðherra í Wintris-málinu.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hafði einnig bent á það í lekamálinu að siðareglurnar væru ekki í gildi. Lesa má ítarlega um samskipti umboðsmanns Alþingis og ráðamanna á síðasta kjörtímabili hér.
Þegar ríkisstjórn Sigurðar Inga hafði tekið við setti hann nýjar siðareglur sem, eins og fyrr segir, byggðu að langmestu leyti á fyrri reglum. Breyting var þó gerð með því að ekki var lengur kveðið á um að reglurnar giltu aðeins á meðan hans ríkisstjórn var við völd.