Malbikunarstöðin Höfði hf., sem er að öllu leyti í eigu Reykjavíkurborgar og er með pólitískt skipaða stjórn yfir sér, er með 73 prósent markaðshlutdeild í malbikunarverkefnum á vegum borgarinnar. Til samanburðar er Höfði með 24 prósent markaðshlutdeild í verkefnum sem Vegagerðin, hinn stóri útboðsaðili malbikunarverkefna á Íslandi, býður út. Þetta kemur fram í samantekt Viðskiptaráðs Íslands á öllum útboðum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar á árunum 2008-2016.
Í grein sem Viðskiptaráð skrifar um málið segir að eignarhald Reykjavíkurborgar á Höfða sé tímaskekkja, að atvinnureksturinn skapi áhættu fyrir íbúa borgarinnar og eignarhaldið því ósamrýmanlegt sjónarmiðum um heilbrigða samkeppni og hagkvæma opinbera þjónustu. Því hvetur Viðskiptaráð til þess að Reykjavíkurborg selji Höfða.
Í grein ráðsins segir: „Mikilvægt er aðilar á samkeppnismarkaði keppi á jafnræðisgrundvelli. Staða fyrirtækja er hins vegar óumflýjanlega ólík þegar verkkaupi og einn bjóðenda er sami aðilinn. Það bætir enn síður stöðuna þegar stjórnarmaður fyrirtækisins er jafnframt borgarfulltrúi í Reykjavík líkt og jafnan á við í tilfelli Höfða. Hér gildir einu hvort farið sé eftir lögbundnum útboðsleiðum. Á meðan Höfði er í eigu Reykjavíkurborgar er ekki hægt að tryggja jafnræði á þessum samkeppnismarkaði.“
Samkvæmt ársreikningi ársins 2015 voru tekjur Höfða 1,7 milljarðar króna og hagnaður þess 100 milljónir króna. Heildareignir voru rúmur milljarður króna og ársverk samtals 37 talsins. Í grein Viðskiptaráðsins segir að eignarhald borgarinnar á „Malbikunarstöðinni Höfða er tímaskekkja. Það skekkir samkeppnisstöðu á markaðnum, röksemdir um fákeppni eiga ekki við og áhætta er tekin með fjármuni skattgreiðenda. Tímabært er að Reykjavíkurborg taki af skarið og hætti framleiðslu og lagningu malbiks fyrir innlendan markað. Þannig er hagsmunum borgarbúa best borgið.“
Í stjórn Höfða sitja Margrét S. Björnsdóttir, sem er stjórnarformaður, Brynhildur Þorgeirsdóttir og Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Reykjavík.
Fréttinni var breytt klukkan 13:40 eftir ábendingu um að upplýsingar um samsetningu stjórnar Höfða sem settar voru fram á heimasíðu fyrirtækisins væru rangar. Þar stendur að Hildur Sverrisdóttir sitji í stjórn Höfða, en hið rétta er að Marta Guðjónsdóttir situr þar.