Njáll Trausti Friðbertsson, nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að sú ríkisstjórn sem flokkur hans myndaði með Viðreisn og Bjartri framtíð hafi ekki verið hans fyrsti kostur. Hann segist þó sætta sig við niðurstöðuna en tekur undir þau sjónarmið að ríkisstjórnin hafi um of yfir sér svip höfuðborgarsvæðisins. Njáll segir enn fremur að íslensk stjórnsýsla hafi brugðist almanna- og öryggishagsmunum í málefnum Reykjavíkurflugvallar, til dæmis með lokun hinnar svokölluðu neyðarbrautar. Flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Nokkur ágreiningsmál hafa þegar komið upp í tengslum við myndun nýrrar ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar, sem tók við völdum um miðja síðustu viku. Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, greiddi ekki atkvæði með stjórnarsáttmála hennar þegar fyrir lá að hann yrði ekki ráðherra. Um helgina sagðist Páll líta svo á að formaður flokksins hafi gert mistök í ráðherravali sínu. Hann hljóti sem skynsamur maður að leiðrétta þau.
Jón Gunnarsson, sem er m.a. ráðherra samgöngumála, sagði við Vísi í síðustu viku að enginn önnur lausn sé í stöðunni en að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Hann endurtók þá skoðun í Morgunútvarpi Rásar 2 á fimmtudag og útilokaði þar ekki inngrip í skipulagsvald Reykjavíkurborgar í málinu. „„Það eru mörg fordæmi fyrir því að stjórnvöld hafa gripið inn í skipulagsvald sveitarfélaga þegar almannahagsmunir liggja við. Þær skyldur sem við berum gagnvart þessu mikilvæga samgöngumannvirki geta alveg réttlætt það ef við náum ekki samkomulagi. Í þessu felst engin hótun af minni hálfu. Það hefur blasað við okkur öllum að þetta hefur gengið erfiðlega, að ná ásættanlegri niðurstöðu,“ sagði Jón.
Ráðherrar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru á öndverðri skoðun og telja að skipulagsvald yfir Vatnsmýrinni, og þar með Reykjavíkurflugvelli, eigi að liggja hjá Reykjavíkurborg, samkvæmt heimildum Kjarnans. Enginn vilji er hjá þeim að víkja frá fyrirliggjandi stefnu til að tryggja veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni til frambúðar, en hann á samkvæmt aðalskipulagi að víkja í skrefum eftir árið 2022. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, sagði við Kjarnann í síðustu viku að miðað við fyrstu yfirlýsingar nýs ráðherra samgöngumála um Reykjavíkurflugvöll megi velta því fyrir sér hvort eitthvað sé að marka stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Njáll, sem er þingmaður Norðausturkjördæmis, segir við Morgunblaðið að ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar hafi verk að vinna að sýna að þeir starfi fyrir landið allt. Hann telur veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni ekki vera ágreiningsmál. „Meirihluti þjóðarinnar vill að flugvöllur sé áfram í Vatnsmýri. Það verður að segjast að mér hefur fundist íslensk stjórnsýsla hafa brugðist almanna- og öryggishagsmunum í þessu máli, svo sem með lokun neyðarbrautarinnar sem svo er kölluð. Ég held að það sé kominn tími til að skoða hvernig tekið er á svona málum meðal nágrannaþjóða okkar, eins og t.d. í Svíþjóð þar sem flugið er líkt og hér mikilvægur samgöngumáti.“ Í Svíþjóð skilgreinir sænska samgöngustofan, Trafikverket, hvaða flugvellir landsins heyri undir þjóðarhagsmuni og hún hefur ákvörðunarvald yfir þeim. Skipulagsvald yfir flugvöllum sem varða þjóðarhagsmuni liggur því hvorki hjá sænska þinginu né sveitarfélögum, heldur ríkisstofnun, samkvæmt frétt RÚV frá því í júní 2015.