Þrátt fyrir að hagvöxtur sé umtalsverður á Íslandi, á bilinu 4 til 5 prósent samkvæmt spám fyrir þetta ár, og að flestir hagvísar séu jákvæðir, þá hefur gengi hlutabréfa í kauphöll Íslands lækkað nokkuð á undanförnum mánuðum. Engin breyting hefur orðið á því í byrjun þessa árs.
Í dag lækkaði vísitalan um 1,53 prósent. Mest var lækkunin á bréfum Eimskipafélagsins en þau lækkuðu um 2,13 prósent í viðskiptum upp á 86 milljónir. Gengi bréfa félagsins hefur fallið hratt að undanförnu. Í byrjun desember var það 338 en er nú komið undir 300, eða 298 í lok dags.
Gengi bréfa í Marel lækkaði einnig töluvert í viðskiptum dagsins, eða um 2,1 prósent. Horft fyrir síðustu mánuði hefur gengið bréfa félagsins ekki lækkað mikið.
Markaðsvirði Icelandair hefur hins vegar fallið verulega á síðustu mánuðum. Um mitt ár í fyrra var virði félagsins tæplega 190 milljarðar en nú er það 105 milljarðar.
Í fyrra styrktist gengi krónunnar um 18,4 prósent að meðaltali, gagnvar helstu viðskiptamyntum. Í byrjun ársins hefur gengið veikst lítillega en það styrktist þó nokkuð í dag. Því er spáð að á þessu ári verði gjaldeyrisinnstreymi vegna vaxtar í ferðaþjónustu enn meira en í fyrra. Búast má við því að það geti leitt til styrkingar krónunnar, en margt getur þó spilað inn í gengisþróunina. Inngrip Seðlabanka Íslands eru þar á meðal, en þau leiddu til þess í fyrra að gengi krónunnar styrktist ekki nærri eins mikið og það hefði gert ef ekki hefði komi til þeirra.
Þá hefur verkfall sjómanna einnig mikil áhrif, þar sem þá dregur úr útflutningi á sjávarafurðum með tilheyrandi minnkandi gjaldeyristekjum fyrir þjóðarbúið.
Heimildir fyrir lífeyrissjóðana til að fjárfesta erlendis hafa verið rýmkaðar verulega að undanförnu en þær nema nú um 100 milljörðum króna fyrir árið. Lífeyrissjóðirnir eiga á bilinu 40 til 60 prósent af öllum skráðum hlutabréfum á Íslandi, þegar allt er talið. Heildarvirði skráðra hlutabréfa lífeyrissjóðana á Íslandi í lok ársins var rúmlega 540 milljarðar króna.