Ólafur Ólafsson, Guðmundur Hjaltason og væntanlega önnur vitni verða að mæta fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um aðkomu þýska bankans Hauck&Aufhäuser að kaupum S-hópsins á hlut í Búnaðarbankanum. Þetta er úrskurður Hæstaréttar Íslands í málinu.
Rannsóknarnefndin var skipuð í sumar eftir að Umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, sagði að nýjar upplýsingar væru komnar fram um viðskiptin. Þessar upplýsingar varpa skýrari ljósi á það að aðkoma fyrrnefnda banka að kaupunum hafi ekki verið sú sem fullyrt var þegar gengið var frá sölu ríkisins á eignarhlutnum.
Tryggvi sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf þar sem hann lagði til að skipuð yrði rannsóknarnefnd um málið. Snýst málið meðal annars um að upplýsa hvort Kaupþingi hafi í raun fjármagnað kaupin, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Kjartan Bjarni Björgvinsson, sem stjórnar rannsókninni, hafði óskað eftir því að Ólafur, Guðmundur og tveir aðrir kæmu fyrir nefndina til að svara spurningum. Þeir neituðu hins vegar að gera það. Það varð til þess að Kjartan Bjarni leitaði til dómstóla til að fá þá til að gefa skýrslu, en við því var brugðist með því að krefjast þess að dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, Ásmundur Helgason, viki vegna vanhæfis. Hann var sagður vanhæfur vegna þess að hann er dómari við réttinn líkt og Kjartan Bjarni. Þessu var vísað á bug af dómstólum.
Hins vegar úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur fyrir jólin að þeim yrði ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi. Lögmaður Ólafs og Guðmundar, Gísli Guðni Hall, hafði þá sent tilkynningu fyrir þeirra hönd þar sem því var haldið fram að allt í kringum rannsóknarferlið væri „undarlegt, fordæmalaust og byggt á órökstuddum dylgjum.“ Hæstiréttur snéri þeirri ákvörðun í dag og kemst að þeirri niðurstöðu ekki sé væri stoð fyrir því í ákvæðum laga að þeir gætu skorast með öllu undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi.
Upphaflega ætlaði rannsóknarnefndin að skila skýrslu til Alþingis fyrir áramót, en vegna þess að mennirnir neituðu að koma fyrir og bera vitni frestaðist það.
Búnaðarbankinn var seldur til svonefnds S-hóps 16. janúar 2003. Hópurinn var leiddur af þeim Ólafi Ólafssyni og Finni Ingólfssyni, fyrrverandi varaformanni og ráðherra Framsóknarflokksins. Aðrir lykilmenn í hópnum voru Kristján Loftsson, oftast kenndur við Hval, Margeir Daníelsson, Jón Helgi Guðmundsson, oftast kenndur við Byko, og lögmaðurinn Kristinn Hallgrímsson.
Aðkoma Hauck & Aufhauser að kaupunum var þannig að bankinn keypti hlut í félaginu Eglu, sem Ólafur átti einnig í, og var eitt þeirra sem keypti hlut í Búnaðarbankanum. Guðmundur var framkvæmdastjóri Eglu. Rúmum tveimur árum eftir að Hauck & Aufhauser keypti hlut í Eglu, og þar af leiðandi í Búnaðarbanka, var bankinn búinn að selja hann allan til annarra aðila innan S-hópsins.
Um tveimur mánuðum eftir að S-hópurinn keypti Búnaðarbankann hófust viðræður um að sameina hann og Kaupþing. Eftir að sú sameining gekk í gegn varð sameinaður banki stærsti banki landsins og hópurinn sem stýrði honum gerði það þangað til að hann féll í október 2008, og skráði sig á spjöld sögunnar sem eitt stærsta gjaldþrot sem orðið hefur.