Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að samningaviðræður um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verði „mjög, mjög, mjög erfiðar.“ Juncker ræddi við blaðamenn í Strassborg í dag og talaði meðal annars um ræðu Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um útgönguna.
Juncker gerði lítið úr fullyrðingum um að ræða May hafi verið hótun gagnvart ESB, og sagðist leggja áherslu á það að samkomulag um útgönguna þurfi að vera með hagsmuni Breta og ESB í huga.
Juncker sagði jafnframt að hann hefði rætt við Theresu May á þriðjudagskvöld og sagt henni að framkvæmdastjórnin væri ekki fjandsamleg. „Við viljum sanngjarnt samkomulag við Bretland, og sanngjarnt samkomulag fyrir Bretland, en sanngjarnt samkomulag þýðir að það sé sanngjarnt fyrir Evrópusambandið.“
Hann bætti því við að samningaviðræðurnar yrðu „mjög, mjög, mjög erfiðar“ vegna þess að Bretland verði nú álitið sem erlent og utanaðkomandi ríki gagnvart Evrópusambandinu.
Juncker hefur sagst heita því að gera hvað sem hann getur til að sjá til þess að samningaviðræðurnar verði eftir bókinni og skili góðri niðurstöðu. „Þeir sem telja að nú sé kominn tíminn til að hluta sundur Evrópu gætu ekki haft meira rangt fyrir sér.“
Af hverju eruð þið ennþá hérna?
Nú er fundað á Evrópuþinginu í Strassborg, en litlum tíma hefur verið varið í umræður um Brexit. Mest hefur verið rætt um flóttamannavandann og svo öryggismál og varnir gegn hryðjuverkum.
Engu að síður voru Evrópuþingmenn Breska sjálfstæðisflokksins, UKIP, gagnrýndir af öðrum Evrópuþingmönnum. Guy Verhofstadt, fulltrúi Evrópuþingsins í Brexit-málum, spurði meðal annars hvað þeir væru enn að gera á Evrópuþinginu. „Af hverju eruð þið ennþá hérna? Ég spyr mig. Farið til Bandaríkjanna. Verið viðstaddir innsetningarathöfn Trump í stað þess að vera hér.“
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur sem kunnugt er sagt að útganga Bretlands úr ESB hafi verið gáfulegt skref. „Bandarískur forseti segir opinberlega öðrum ríkjum að kljúfa sig frá Evrópusambandinu. Ég hef aldrei séð annað eins, aldrei heyrt annað eins.“ Verhofstadt sagði einnig að kosning Trump ætti að vera vakning fyrir Evrópu. „Horfumst í augu við það, vendipunkturinn er hér, Bandarískur forseti, Trump, sem er opinberlega á móti Evrópusambandinu og segir að önnur ríki muni snúa sér burt. Hvaða vendipunkt þurfum við annan?“