Fasteignaverð hækkaði um 15 prósent í fyrra á höfuðborgarsvæðinu, sem er ein mesta hækkun sem mælst hefur á einu ári í Íslandssögunni. Aðeins árið 2007 er sambærilegt hvað þetta varðar. Á sama tíma og verðið hækkaði þá styrktist gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum verulega, eða um 18,4 prósent að meðaltali.
Sé sérstaklega horft á stöðuna í Bandaríkjadal þá hækkaði verð á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu um 36 prósent í fyrra og verðlag hækkaði um tæplega 20 prósent. Verðbólga, út frá krónunni horft, er hins vegar fyrir neðan 2,5 prósent markmiðið eða 1,9 prósent. Verðbólga hefur haldist undir markmiði í meira en þrjú ár og hefur styrking krónunnar þar spila stóra rullu.
Margt bendir til þess að gengi krónunnar geti haldið áfram að styrkjast á næstu misserum. Gjaldeyrisinnstreymi frá erlendum ferðamönnum hefur aukist gífurlega samhliða miklum vexti í ferðaþjónustu, en um 1,8 milljónir erlendra ferðamanna komu til landsins í fyrra og er gert ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi um 500 þúsund á þessu ári, sé mið tekið af spám greinenda. Komi ekki til mikilla inngripa Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði þá mun gengi krónunnar vafalítið styrkjast.
Í viðtali við Markaðinn í síðustu viku sagði Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, að vaxtastefna Seðlabanka Íslands væri ekki í takt við aðstæður í hagkerfinu. Meginvextir bankans er nú fimm prósent.
Valdimar sagði aðstæður hafa breyst mikið með tilkomu vaxtarins í ferðþjónustu. „Aðstæður eru með allt öðrum hætti en í aðdraganda bankahrunsins 2008 þegar góðærið var tekið að láni með erlendri skuldsetningu. Núna er hagvöxtur drifinn áfram af nýrri og ört vaxandi gjaldeyrisskapandi atvinnugrein auk þess sem þjóðhagslegur sparnaður heldur áfram að aukast umtalsvert. Það er því erfitt að sjá hvaða þörf er á því að halda vöxtum jafn háum og raun ber vitni enda virðist þessi breytta samsetning hagkerfisins þýða að það er í jafnvægi við mun hærra gengi krónunnar en við höfum áður þekkt í íslenskri hagsögu,“ sagði Valdimar.