Vegagerðin stóð fyrir framkvæmdum á vegslóða innan einkalands á Sólheimasandi, frá þjóðvegi 1 að flugvélarflakinu á sandinum, síðastliðið sumar. Vegagerðin hafði fengið vilyrði frá landeigendum á Sólheimasandi að opnað yrði fyrir bílaumferð eftir veginum þegar framkvæmdunum var lokið en það hefur ekki gerst og stendur ekki til.
Einn landeigenda á svæðinu segir að náttúruverndarsjónarmið ráði því að slóðin niður að flugvélarflakinu hafi ekki verið opnuð fyrir almenna bílaumferð. Slóðin sé opnuð fyrir þá sem þurfa að aka niður að flakinu vegna atvinnustarfsemi. Ljósmyndarar og kvikmyndagerðarmenn þurfa þess vegna að borga fyrir opnun vegarins.
Í mars árið 2016 var leiðinni að flugvélarflakinu lokað fyrir bílaumferð vegna mikils utanvegaaksturs á sandinum. Í samtali við RÚV sagði Benedikt Bragason á Ytri-Sólheimum, einn landeigenda á Sólheimasandi, að um tímabundna lokun væri að ræða á meðan leitað væri ráða um hvernig bregðast ætti við utanvegaakstri.
Eftir að hliðinu á veginum við þjóðveg 1 var lokað í mars í fyrra hafa ferðamenn lagt bifreiðum sínum við þjóðveg 1 eða á vegöxlinni við afleggjarann inn á einkaveginn og gengið um fjögurra kílómetra leið niður að flugvélarflakinu. Nokkur hætta hefur skapast vegna þessa og eitt banaslys orðið þegar erlendur ferðamaður varð fyrir bíl sem ók eftir þjóðveginum þegar hann steig úr bíl sínum.
Eftir að ljóst var að vegurinn yrði ekki opnaður stóð Vegagerðin fyrir byggingu bílaplans við þjóðveginn sem nýverið var tekið í notkun.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í tölvupósti til Kjarnans að vegagerðin niður eftir Sólheimasandi hafi verið óvenjulegt verkefni og að það gefi ekki fordæmi um vinnu við slóða eða aðra vegi utan vegakerfisins. „Við höfðum miklar áhyggjur af umferðaröryggi á þjóðveginum, sem er á okkar ábyrgð og fórum því í þessar lágmarksaðgerðir bæði til að koma bílum af þjóðveginum og bæta aðkomuna,“ skrifar Pétur um vegaframkvæmdina á einkalandinu. „[...] hætta skapaðist við útafakstur þarna og ekki síður inn á akstur vegna ökutækja sem stöðvuðu í vegkantinum. Það eru iðulega margir tugir bíla á stæðinu.“
Vegurinn hafi verið heflaður síðasta sumar „[...]í þeirri trú að landeigendur myndu opna fyrir almenna umferð að þessu loknu og í samráði við þá,“ skrifar Pétur enn fremur. „Þeir höfðu kvartað yfir því að slóðin var orðin svo léleg að menn voru farnir að keyra um allt þarna. Þess vegna gerðum við þetta með þeim. Þ.e.a.s. hefluðum slóðann og settum vegstikur í báða kanta með 50 metra millibili til að afmarka leiðina betur.“
Í svarinu segir að kostnaður við vegheflunina og stikun beggja vegna vegarins hafi kostað um hálfa milljón krónur. Í dag nýtist þessi leið sem gönguleið að flugvélarflakinu.
Í samtali við Kjarnann segir Elín Einarsdóttir, einn landeigendanna, að það sé rétt að Vegagerðinni hafi verið gefið loforð um að vegurinn yrði opnaður aftur eftir framkvæmdirnar. Sú framkvæmd hafi hins vegar dregist töluvert. Landeigendur hafi svo ákveðið að opna ekki fyrir umferð eftir lagfærðum vegi eftir stöðufund þeirra með fulltrúum Vegagerðarinnar og lögreglunni.
„Lögreglan sagði okkur að ef búið er að aka utan vegarins og marka slóða þá er sá sem á eftir kemur ekki að aka utan vegar,“ segir Elín. Það sé þess vegna ekki hægt að hætta á að opna fyrir umferð bíla. Á stöðufundinum hafi verið ákveðið að landeigendur myndu leggja til landsvæði við þjóðveg 1 þar sem Vegagerðin gæti byggt bílaplan svo tryggja mætti öryggi vegfarenda.
Vilja 100.000 krónur fyrir atvinnutengdar ferðir að flakinu
Í ágúst í fyrra voru fluttar af því fréttir að ferðamaður hafi verið rukkaður um 100.000 krónur fyrir að hafa ekið niður að flaki flugvélarinnar á Sólheimasandi. Sá taldi að á sér hafi verið brotið og tilkynnti málið til lögreglunnar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi var ekki um refsivert athæfi að ræða og ekki þótti tilefni til sérstakrar rannsóknar á þessu máli.
Elín segir í samtali við Kjarnann að landeigendur hafi ákveðið að heimtað sé gjald af atvinnutengdum ferðum á bílum að flakinu. Töluverður fjöldi kvikmyndagerðarmanna og ljósmyndara kjósi að nota flugvélarflakið sem sviðsmynd í verkum sínum. Það hafi verið tilfellið í því dæmi sem er nefnt hér að ofan, en það látið líta út í fjölmiðlum að um almennan ferðamann hafi verið að ræða. Hið rétta sé að ferðaþjónustufyrirtæki eins landeigandans á svæðinu hafi leitt ljósmyndara að flakinu.
Lögreglan skiptir sér ekki af því að einkavegi sé lokað enda eru landeigendur í fullum rétti til að loka leiðinni fyrir bílaumferð. Lögreglan hefur haft afskipti af og vísað fólki af þjóðveginum sem hafði stöðvað bílana sína þar. Engum sektum hafi hins vegar verið beitt gegn þeim.
Vegagerðin sýnir meiri varúð
Ellefu landeigendur á svæðinu tóku ákvörðun um að loka og læsa leiðinni niður að flaki flugvélarinnar á Sólheimasandi. Eins og áður segir var haft eftir Benedikt Bragasyni, einum landeigenda, á RÚV að um tímabundna lokun hafi verið að ræða.
Landeigendur hafa hins vegar ekki opnað fyrir almenna bílaumferð niður að flugvélarflakinu á ný, þvert á þau loforð sem gefin voru starfsmönnum Vegagerðarinnar. „Eftir þetta hefur verið passað upp á að ekkert væri gert nema búið væri að ganga frá skriflegum samningum,“ skrifar Pétur, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, enn fremur í svari við fyrirspurn Kjarnans. Skriflegir samningar voru svo gerðir þegar bílastæðin við mót þjóðvegarins og einkavegarins voru útbúin. Stæðin eru ekki á landi Vegagerðarinnar. „Þetta gerðum við í haust en það dróst svo lengi sem raun bar vitni því það tók langan tíma að landa þeim samningum. Þá höfðu skapast hættulegar aðstæður vegna bíla sem lögðu í vegkantinum og út um land þar sem leiðin að flakinu var lokuð nema fyrir gangandi.“