Aðeins 28 hafa sótt um leyfisnúmer fyrir sölu á heimagistingu eftir að ný lög um skammtímaleigu á húsnæði gengu í gildi um áramótin. Síðast þegar leiguvefurinn Airbnb gaf upp tölur um fjölda íslenskra skráninga á vefnum voru þær nærri fjögur þúsund í janúar í fyrra. Síðasta mánuðinn hafa 2.662 skráningar verið virkar á vefnum. Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sér um skráningu leyfisnúmera. Samkvæmt upplýsingum Túrista.is hefur verið sótt um leyfisnúmer fyrir aðeins 28 eignir. Í löggjöfinni um takmarkanir á útleigu heimila og fasteigna sem tók gildi um áramótin er fjöldi þeirra daga sem fasteign getur verið í útleigu takmarkaður við 90 daga á ári, nema sótt sé um sérstakt rekstrarleyfi. Allir sem hyggjast leigja út húsnæði sitt á skammtímaleigu verða hins vegar að sækja um skráningarnúmer og birta það með auglýsingu húsnæðisins á vefnum.
Í lauslegri könnun Túrista á íslenskum skráningum á Airbnb fannst ekkert skráningarnúmer með auglýsingum. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu mun halda úti könnun á leiguvefjum og ganga þannig úr skugga um að skráningarnúmerin séu sýnileg. Sé skráningarnúmerið ekki sýnilegt geta stjórnvöld lagt stjórnvaldssektir á eiganda húsnæðisins. Nánar er fjallað um skilyrði heimagistingar á vefnum gestur.is.
Fjöldi gistirýma í útleigu hér á landi hefur margfaldast á síðustu árum og þá gildir einu um hvort það eru heilar íbúðir eða afmörkuð herbergi sem eru í boði. Á Airbnb.com hefur verið hægt að finna 3.104 skráð gistirými síðustu 30 daga í Reykjavík. Þessi fjöldi var að jafnaði um 1.700 gistirými árið 2015 og rúmlega 700 árið 2014. 73,2 prósent þeirra sem bjóða upp á leigu í Reykjavík á vef AirBnB bjóða heila íbúð til leigu. Í 59 prósent tilvika voru eignir í Reykjavík samtals í útleigu í minna en þrjá mánuði undanfarið ár.
Kjarninn fjallaði um takmarkanir á skammtímaleigu húsnæðis í Reykjavík og víðar í byrjun desember í fyrra.
Til þess að fá skráningarnúmer verða einstaklingar sem ætla að leigja út íbúðina sína eða hluta af heimili sínu að uppfylla ákveðnar kröfur um brunavarnir, ástand og húsakynnin verða að vera samþykkt sem íbúð. Sérstakt árgjald að upphæð 8.000 krónur þarf einnig að greiða fyrir skráninguna. Allar þessar kröfur eru gerðar til þess að einfalda og bæta eftirlit með leyfislausri starfsemi.