Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinn í kvöld að ríkisstjórn hans muni beita sér fyrir því að efla menntun og samkeppnishæfni Íslands til að búa í haginn fyrir ungu kynslóðina til framtíðar litið.
Þetta kom fram í stefnuræðu Bjarna á Alþingi í kvöld. „Til að ná þessum árangri og bæta samkeppnishæfni Íslands þurfum við að bæta menntun. Menntun er lykillinn að framtíðinni. Hún gerir okkur kleift að skapa það hugvit sem útflutningur okkar byggist á. Menntun gerir börnin okkar betur fær að standast alþjóðlega samkeppni en setur jafnframt þá pressu á okkur að bjóða ungu kynslóðinni samkeppnishæf lífskjör í alþjóðavæddum heimi. Menntun gerir okkur líka betur í stakk búin að takast á við tæknibreytingar. Ný bylting í atvinnuháttum er framundan en við vitum ekki hvaða áhrif hún mun hafa á einstakar atvinnugreinar. Eitt dæmi er sjálfakandi bílar. Við vitum ekki hvort þeir muni leiða til fjölgunar eða fækkunar bíla. Menntun hjálpar okkur að takast á við hið óvænta og óþekkta þótt óljóst sé hvernig hún verði að lokum nýtt. Ríkisstjórnin mun því beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld. Það er framsýni,“ sagði Bjarni meðal annars.
Auka þarf verðmæti
Hann sagði Ísland standa frammi fyrir miklum áskorunum, þar sem Ísland þurfi að tvöfalda útflutningsverðmæti á næstu fimmtán árum. „Við verðum að halda áfram og standa okkur í samkeppni þjóðanna. Við þurfum að tvöfalda verðmæti útflutnings á næstu 15 árum. Hvernig gerum við það? Varasamt er að treysta á að okkur takist það með því einu að auka magn útfluttrar vöru, svo sem sjávarfangs eða málma. Nær er að leggja áherslu á aukna verðmætasköpun úr því sem við höfum úr að spila. Og við verðum að byggja á hugviti til að framleiða vörur og þjónustu í alþjóðlegri samkeppni. Þar liggja sóknarfæri okkar til aukins útflutnings til framtíðar. Nýsköpun og þróun eru lykilorðin. Ríkisstjórnin hyggst styðja myndarlega við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða verður víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina.“Mesta ógnin
Bjarni nefndi sérstaklega hlýnun jarðar sem mestu ógn sem mannkynið stæði frammi fyrir. Íslandi myndi leggja sitt af mörkum. „Ein stærsta ógn samtímans er hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna. Svo aftur sé vitnað í Tómas: „En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl, / þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða. / En við, sem ferðumst, eigum ei annars völ. / Það er ekki um fleiri gististaði að ræða.“ Í aðgerðaráætlun í tengslum við Parísarsamkomulagið hyggst ríkisstjórnin setja græna hvata og hvetja til skógræktar, landgræðslu og orkuskipta í samgöngum. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að ekki verði efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna mengandi stóriðju,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.
Í lok ræðunnar sagði hann að markmiðið væri byggja Ísland upp sem fyrirmyndarþjóðfélag, þar sem allir skoðanir væru virtar. Hann áréttaði að ríkisstjórnin ætlaði sér að auðvelda innflytjendum að koma sér fyrir í íslensku samfélagi og leggja sitt af mörkum. „Samfélag þar sem mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum mynda sterkan grunn,“ sagði Bjarni.
Hann kom á framfæri samúðarkveðjum til fjölskyldu Birnu Brjánsdóttur, sem fannst látin á dögunum eftir hafa verið saknað í vikutíma. Hann hrósaði lögreglu og björgunarsveitum, og þjóðinni fyrir samstöðu og styrk á erfiðum tímum.