Sigurður Már Jónsson verður áfram upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Hann hefur gengt starfinu síðan í október 2013 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og ráðuneyti hans réð hann til starfa.
Starf upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar var búið til árið 2012 í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún leiddi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Jóhann Hauksson, fjölmiðlamaður, var fyrstur til þess að gegna þessu starfi en honum var sagt upp af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Sigurður Már ráðinn í hans stað.
Ráðning upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar er gerð með sömu heimild í lögum um Stjórnarráð Íslands sem gerir ráðherrum kleift að ráða til sín aðstoðarmenn og ríkisstjórn að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur. Ráðning upplýsingafulltrúans fellur undir seinni lið þessarar málsgreinar og er þess vegna einn af þessum þremur sem ríkisstjórnin getur ráðið handa hverjum ráðherra „ef þörf krefur“. Bjarni Benediktsson hefur þegar ráðið sér einn aðstoðarmann. Það er Svanhildur Hólm en hún var einnig aðstoðarmaður Bjarna þegar hann var fjármálaráðherra á síðasta kjörtímabili.
Áður hafði forsætisráðuneytið upplýsingafulltrúa sem sá um samskipti ráðuneytisins við fjölmiðla eins og tíðkast í öðrum ráðuneytum á Íslandi. Samkvæmt skipuriti forsætisráðuneytisins heyra aðstoðarmenn beint undir forsætisráðherra. Upplýsingafulltrúar annarra ráðuneyta heyra undir skrifstofustjóra ráðuneytanna en ekki beint undir ráðherra hverju sinni. Upplýsingafulltrúar ráðuneyta þurfa þess vegna að vera ráðnir samkvæmt reglum um opinber störf.
Uppfært kl 14:41 – Upphaflega var sagt að upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar væri aðstoðarmaður sem ráðinn væri af forsætisráðherra. Hið rétta er að ríkisstjórnin hefur samkvæmt sömu málsgrein laganna um aðstoðarmenn ráðherra heimild til að ráða þrjá aðstoðarmenn til viðbótar við þá tvo sem hver ráðherra getur valið sér. Þetta hefur verið áréttað í textanum hér að ofan.