„Við erum að fylgjast grannt með gangi mála og það er ljóst að áhrifin á okkur, samkeppnisaðila okkar og vitaskuld fleiri geira, geta orðið mikil,“ segir Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, um hugmyndirnar sem Sean Spice, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, kynnti í gær um að Bandaríkin ætluðu að setja á 20 prósent skatt á allar vörur sem framleiddar væru í Mexíkó og kæmu inn á bandarískan markað.
Eins og greint var frá í morgun á vef Kjarnans, þá er 20 prósent skatturinn nú sagður ein leið af mörgum sem bandarísk stjórnvöld eru að skoða til afla fjár, sem síðan verður notað til að reisa vegg á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Stjórnvöld í Mexíkó hafa sagt að þau muni ekki greiða fyrir vegginn og að sértækur skattur sem þessi muni ekki lenda á neinum öðrum en neytendum í Bandaríkjunum þegar upp er staðið í formi hærra vöruverðs.
Össur er með framleiðslu á sínum vegum í Tijuana í Mexíkó og flytur meðal annars vörur sem framleiddar eru þar inn á Bandaríkjamarkað. Það er þó aðeins hluti af starfseminni á heimsvísu, en hann hefur farið vaxandi þar á undanförnum árum.
Sveinn segir að samkeppnisaðilar Össurar séu einnig að framleiða vörur í Mexíkó og að því leyti sé líklegt að breytingar á regluverki eða viðskiptasamningum milli þjóðanna muni hafa svipuð áhrif á alla keppinauta. Erfitt sé þó að segja þar sem ekkert liggi fyrir ennþá hvað muni gerast.
Össur er eitt stærsta fyrirtæki landsins en markaðsvirði þess er nú 172 milljarðar króna. Það er í meirihlutaeigu danskra hluthafa, en hjartað í starfseminni er engu að síður á Íslandi og hefur alltaf verið. Fyrirtækið hefur oft verið nefnt eitt af flaggskipum íslenskrar nýsköpunar og eitt fárra fyrirtækja sem náð hefur rótfestu á alþjóðamarkaði með einstakri tækni sinni og hönnun.
Eigið fé félagsins er nú um 460 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 55 milljörðum króna.
Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir Mexíkó en Bandaríkin er langsamlega mikilvægasta markaðssvæði landsins þegar kemur að útflutningi. Á ári eru vörur fluttar frá Mexíkó til Bandaríkjanna fyrir meira en 300 milljarða Bandaríkjadala, og gæti sértæk skattlagning upp á 20 prósent stórskaðað hagkerfi Mexíkó þar sem búa 122 milljónir manna.