Alþýðusamband Íslands (ASÍ) segir að niðurstaða Leiðréttingarinnar, niðurfærslu á hluta verðtryggðra húsnæðislána Íslendinga um 72,2 milljarða króna, sé fyrst og fremst áfellisdómur ufir aðgerðinni. Hún hafi verið bæði ómarkviss og slæm ráðstöfun á ríkisfjármagni sem hafi runnið að langmestu leyti til einstaklinga sem glímdu hvorki við greiðslu- né skuldavanda og leitt til aukins ójöfnuðar með „tilfærslu á skattfé til vel stæðra hópa með sterka eiginfjárstöðu“. Þetta kemur fram í greiningu á skýrslu sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fyrir Alþingi í síðustu viku um hvernig Leiðréttingin skiptist á milli tekju- og eignahópa.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þær upplýsingar sem fram komu í skýrslunni, fyrst í fréttaskýringu sem birtist 18. janúar og síðan í annarri sem birtist 23. janúar, eftir að hafa fengið viðbótarupplýsingar um skiptingu Leiðréttingarinnar á milli tekju- og eignahópa hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Kjarninn greindi auk þess frá því fyrr í dag að lokadrög skýrslunnar hafi verið tilbúin í júní 2016 og að vinnslu við hana hafi verið lokið í október sama ár. Skýrslan var hins vegar ekki birt opinberlega fyrr en 18. janúar 2017.
Verst staddi hópurinn fékk lítið sem ekkert
Í greiningu ASÍ segir að þær upplýsingar sem nú liggi fyrir um ráðstöfun hennar bendi til þess að Leiðréttingin hafi að litlu leyti runnið til þess hóps keypti húsnæði á árunum 2006-2008 og lenti verst í raunlækkun húsnæðis. „Ennfremur hafi sá hópur sem lenti í greiðsluvanda í kjölfar hrunsins að miklu leyti ekki fallið undir leiðréttinguna og því aldrei átt von á að hljóta stóra leiðréttingu húsnæðislána. Aðgerðin hefur leitt til aukins ójöfnuðar með tilfærslu á skattfé til vel stæðra hópa með sterka eiginfjárstöðu. Niðurstaðan er fyrst og fremst áfellisdómur yfir aðgerðinni sem var bæði ómarkviss og slæm ráðstöfun á ríkisfjármagni sem rann að langstærstu leyti til einstaklinga sem hvorki glímdu við greiðslu- né skuldavanda. Tímasetning aðgerðarinnar var einnig óheppileg því slaki var að hverfa í hagkerfinu þegar hún kom til framkvæmda sem leiddi til aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði.“
Þar segir einnig að umtalsverðar upplýsingar hafi þegar legið fyrir um umfang skulda- og greiðsluvanda íslenskra heimila fyrir Leiðréttinguna. Bæði greiðslu- og skuldavandi heimila hafi verið vel kortlagður í kjölfar efnahagshrunsins. Í greiningu Seðlabankans á umfangi greiðsluvanda var til að mynda áætlað að um 21 þúsund heimili væru í greiðsluvanda í lok árs 2010. „Greiðsluvandinn var mun meiri hjá heimilum í lægri tekjuhópum og voru um 50 prósent heimila í lægsta tekjufimmtung í greiðsluvanda á árunum 2009-2010, um þriðjungur í næst lægsta tekjufimmtung og rúmlega fimmtungur í mið tekjufimmtungi. Þar kemur einnig fram að greiðsluvandi væri mun umfangsmeiri meðal barnafjölskyldna heldur en heimila án barna. Hvað skuldavandann varðar kemur fram að hlutfall húseigenda með neikvætt eigið fé hafi hæst verið um 40 prósent og að umfangið hafi verið meira hjá tekjuhærri heimilum. En þegar heimili í bæði skulda- og greiðsluvanda voru skoðuð sérstaklega kemur í ljós að þau voru flest í tekjulægri hópum. Verst staddi hópurinn fékk lítið sem ekkert.“
Segja kjarasamninga í uppnámi
ASÍ bendir á að á síðasta kjörtímabili hafi húsaleigubætur staðið í stað þrátt fyrir að margir leigjendur væru í greiðsluvanda og leiguverð hafi hækkað mikið vegna vaxandi eftirspurnar eftir húsnæði samfara húsnæðisskorti. Á sama tíma hafi 72,2 milljörðum króna verið veitt úr ríkissjóði til að niðurgreiða húsnæðisskuldir og þeir fjármunir hafi fyrst og fremst farið til tekju- og eignameiri húsnæðiseigenda. „Alþýðusamband Íslands hefur barist fyrir húsnæðisöryggi launafólks um árabil. Sú barátta skilaði loks árangri þegar ríkisstjórin lofaði innleiðingu almenns íbúðakerfis með yfirlýsingu í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 2015. Almenna íbúðakerfið nýtur stofnframlaga frá ríki og sveitarfélögum og er ætlað að tryggja tekjulægra fólki leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Það var mat Alþýðusambandsins að þörfin væri a.m.k. 1.000 íbúðir á ári, næstu fimm árin. Ríkisstjórnin var ekki tilbúin til að mæta þeirri þörf en sættist á 600 íbúðir árlega í fjögur ár. Það eru því veruleg vonbrigði að ekki sé staðið við loforð um stofnframlög til 600 íbúða í fjárlögum 2017 og leggur Alþýðusambandið ríka áherslu á að þeir 2 milljarðar sem upp á vantar verði tryggðir á þessu ári. Að öðrum kosti eru forsendur kjarasamninga í uppnámi.“