Sigurður Ingólfsson, sem var formaður starfshóps sem falið var að skoða umfang aflandseigna Íslendinga og skila skýrslu um málið, segir að mörgum sem til þekkja finnist sem Íslendingar hafi verið plataðir við gerð tvísköttunarsamninga við Holland og Lúxemborg. Samningarnir voru gerðir 1999 og 2002 og áttu meðal annars að liðka fyrir erlendri fjárfestingu hérlendis. Þeir voru hins vegar fyrst og síðast nýttir af Íslendingum til þess að komast hjá því að greiða skatta á Íslandi með stofnun skúffufélaga í Hollandi og Lúxemborg. Þetta kemur fram í umfjöllun Kastljóss um aflandseignaskýrsluna sem sýnd verður í kvöld.
Í skýrslunni, sem var birt 6. janúar síðastliðinn en hafði þá verið tilbúin frá því um miðjan september 2016, kom fram að stökkbreyting hafi orðið á flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar, og fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldaðist frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-földuðust á sama tímabili. Uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 nemur einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 nemur líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.
Aflandsvæðingin á íslenskum eignum var að öðrum þræði „þjóðernissinnuð“ segja skýrsluhöfundar, vegna þess að aflandsfélögin fjárfestu í stórum stíl á Íslandi. Til dæmis var meirihluti úrvalsvísitölu Kauphallarinnar, eða 56%, í eigu aflandsfélaga í árslok 2007, eða um 1.500 milljarðar króna. Félögin voru að langmestu leyti í eigum Íslendinga, og það sama gilti um óskráð félög í aflandseignarhaldi. Á þessum tíma er líklegt að um 70 prósent eignasafns í eignastýringu íslensku bankanna í Lúxemborg hafi verið bundin í íslenskum hlutabréfum. Þetta var nátengt mikilli innlendri eignaverðsþenslu, útlánavexti og róttækri fjármálavæðingu íslensks samfélags á þessum tíma, segir í skýrslunni.