Rúmlega þremur á hálfu ári eftir að ákæra var gefin út á hendur Jóni Inga Gíslasyni, vegna stórfelldra skattalagabrota, hefur málið nú loks verið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur og er aðalmeðferð áformuð 1. júní næstkomandi.
Ákæran var gefin úr 26. apríl 2013 og snýr að því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir árin 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2007 og 2008.
Eru vantaldar fjármagnstekjur vegna framvirkra gjaldmiðlasamninga sagðar í ákæru nema 110,5 milljónum króna, og vantalinn fjármagnstekjuskattur um ellefu milljónum.
Aðspurð sagði Ámunda B. Baldursdóttir, saksóknari, að málið hefði meðal annars tafist þar sem beðið var eftir niðurstöðu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem álitamál er varða tvöfalda refsingu í skattamálum var undir.
Umfangsmiklir samningar
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. Janúar síðastliðinn, tæplega áratug frá því fyrstu viðskiptin áttu sér stað sem ákæran nær til.
Um er að ræða afleiðusamninga sem tengdust gengisvísitölu íslensku krónunnar í gegnum Glitni. Á árinu 2007 var um að ræða þrettán viðskipti á tímabilinu frá 12. febrúar til 14. desember og námu tekjur vegna þessara samninga 13,3 milljónum króna.
Á árinu 2008, þegar gengi krónunnar féll hratt samhliða vandamálum í efnahagslífi þjóðarinnar, var umfangið í afleiðuviðskiptum með evru mun meira. Samtals námu tekjurnar 97 milljónum króna og í samningum sem gerðir voru á tímabilinu frá 19. júní til 5. september 2008.
Jón Ingi neitar sök í málinu.
Hann hefur lengi tekið virkan þátt í stjórnmálastarfi hér á landi á meðal annars sæti í landsstjórn Framsóknarflokksins, samkvæmt upplýsingum sem fram koma á vef flokksins.
Í ákæru eru brotin talin varða við almenn hegningarlög og lög um tekjuskatt, eins og áður sagði.