Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, vill að nýframlagt áfengisfrumvarp verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári. Henni finnst að umræðan eigi frekar að beinast að lausnum á öðrum málum en að takast um afvegaleiðingu frá þeim sem sé „frumvarp Sjálfstæðisflokksins um bús í búðir“ . Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Birgittu á Facebook.
Þrír þingmanna Pírata eru á meðal þeirra níu þingmanna úr fjórum flokkum sem hafa lagt fram áfengisfrumvarpið. Þau eru Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson. Með þeim eru alls sex þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Bjartri framtíð og Viðreisn.
Frumvarpið var lagt fram í gær. Verði það að lögum verður einkaleyfi ÁTVR á áfengissölu afnumið frá og með næstu áramótum, sala á því heimiluð í sérverslunum, í sérrýmum innan verslanna eða yfir búðarborð, áfengisauglýsingar innlendra aðila heimilaðar og leyfilegt verður að auglýsa það í innlendum fjölmiðlum.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þegar sagt að hann muni greiða atkvæði á móti nýju áfengisfrumvarpi og Einar Bynjólfsson, þingmaður Pírata, ætlar mjög líklega að láta afstöðu landlæknis móta afstöðu sína gagnvart frumvarpinu. Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar og einn flutningsmanna frumvarpsins, sagði í samtali við Kjarnann í gær að hann teldi nokkuð öruggan meirihluta á þinginu fyrir málinu.
Birgitta leggur til að einhver skelli í undirskriftarlista til þingmanna um að skella málinu í þjóðaratkvæði. „Setjum áfengisfrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum og einbeitum okkur að því að ræða lausnir á þeirri staðreynd að fullt af fólki býr við enn þrengri kjör eftir breytingar á lögum um almannatryggingar. Þeirri staðreynd að lög um húsaleigubætur hefur skert kjör fjölda landsmanna. Þeirri staðreynd að við erum í baráttu um frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Fullt af börnum fara svöng að sofa. Fullt af fólki hefur ekki efni á að leysa út lyfin sín. Það líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki um það en alltaf skal það vera fyrsta afvegaleiðingin að ræða endalaust um sama frumvarp sjálfstæðsflokksins um bús í búðir. Ég legg til að einhver skelli í undirskriftarlista til þingmanna um að skella þessu bara í þjóðaratkvæði.“