Ólöf Nordal, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er látin fimmtug að aldri. Hún hafði barist við krabbamein um nokkurt skeið.
Ólöf var þingmaður Norðausturkjördæmis 2007 til 2009 og þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður 2009 til 2013. Frá 2014 til 2016 var hún innanríkisráðherra utan þings fyrir Sjálfstæðisflokkinn en hún varð svo aftur þingmaður fyrir flokkinn í kosningunum í október síðastliðnum. Hún var varaformaður Sjálfstæðisflokksins árin 2010 til 2013 og svo aftur frá árinu 2015.
Ólöf lauk stúdentsprófi frá MR og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands. Hún lauk einnig MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012. Hún starfaði sem deildarstjóri í samgönguráðuneytinu frá 1996 til 1999 og sem lögfræðingur hjá Verðbréfaþingi Íslands frá 1999 til 2001. Hún var stundakennari í lögfræði og síðar deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar Háskólans á Bifröst frá 1999 til 2002 og starfaði sem yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun 2002 til 2004. Hún starfaði svo hjá RARIK og varð framkvæmdastjóri Orkusölunnar áður en hún varð þingmaður árið 2007. Hún var formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands 2013 til 2014.
Eftirlifandi eiginmaður Ólafar er Tómas Már Sigurðsson. Þau eiga fjögur börn.