„Sérfræðingar á flugmarkaði, sem ekki vilja koma fram undir nafni, segja að margt bendi til að alvarleg mistök hafi verið gerð þegar Icelandair festi kaup á sextán nýjum 737MAX vélum frá Boeing en gengið var frá kaupunum árið 2013.“
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þar sem gengi Icelandair Group er til umfjöllunar. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað mikið, ekki síst eftir að uppfærð rekstrarspá félagsins fyrir árið 2017 var birt þar sem fram kom að árið í ár verða að líkindum töluvert lakara en það síðasta.
Í Morgunblaðinu í segir að frá áramótum hafi eignarhlutur þeirra 11 lífeyrissjóða sem mest eiga í Icelandair rýrnað um nærri 22 milljarða króna en sjóðirnir eiga meira en helming alls hlutafjár í félaginu. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti einstaki eigandinn í félaginu með tæplega 14,7 prósent hlut. Hann var að mestu keyptur á genginu 2,5 en gengi bréfanna er nú tæplega 15 eftir mikla lækkun upp á síðkastið.
Fyrrnefndar vélagar eiga að leysa af hólmi Boeing 757 vélar sem félagið hefur haft í þjónustu sinni um langt árabil. Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að aðstæður á markaði hafi breyst og vélarnar henti ekki nægilega vel inn í mikilvægasta leiðakerfi félagsins. Það muni að öllum líkindum reynast félaginu kostnaðarsamt að vinda ofan af viðskiptunum sem nema á annað hundrað milljörðum króna, þegar allt er talið.