Hlutabréfasjóðir á íslenskum hlutabréfamarkaði hafa ávaxtað fé sitt misjafnlega á undanförnu ári og nemur munurinn á þeim sem hafa náð bestum og verstum árangri tugum prósenta.
Sá hlutabréfasjóður sem skilað hefur bestri ávöxtun á undanförnu ári, sé litið til yfirlits Keldunnar, er sjóður GAMMA, upp á 3,2 milljarða króna, með 10,5 prósenta ávöxtun. Næstur kemur hlutbréfavísitölusjóður á vegum Íslenskra verðbréfa, upp á 1,8 milljarð, með 3,6 prósenta ávöxtun.
Aðrir sjóðir eru með neikvæða ávöxtun. Hutabréfaverð hefur farið lækkandi á síðustu tólf mánuðum og munar þar mikið um lækkun á bréfum Icelandair Group, þar sem stærð þess félags vegur þungt á markaðnum.
Mest er lækkunin hjá Stefni ÍS 15 en sá sjóður er jafnframt stærsti sjóðurinn í þessum yfirliti Keldunnar en stærð hans nemur 36,8 milljörðum króna. Ávöxtunin hefur verið neikvæð um 12,6 prósent á árinu.
Miklu munar þar um Icelandair, en samkvæmt upplýsingum á vef Stefnis er vægi Icelandair í eignasafni sjóðsins um 26,7 prósent, miðað við stöðuna eins og hún var 31. janúar 2016. Félagið er nú 77 milljarða króna virði en um mitt ár í fyrra var það 189 milljarða króna virði.
Verðmætasta félagið á íslenska hlutabréfamarkaðnum er Marel en það er 219 milljarða króna virði, miðað við stöðuna eins og hún var við lokun markaða í gær.