Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og þingmaður flokksins, er í leyfi frá störfum sínum sem aðstoðarframkvæmdastjóri skrifstofu Seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta, á grundvelli fjórðu greinar laga um þingfararkaup og þingfararkostnað.
Samkvæmt fjórðu greininni geta þingmenn tekið sér leyfi frá störfum hjá hinu opinbera, í allt að fimm ár, til að gegn þingmennsku.
Í fjórðu greininni segir síðan að „afsali hann sér starfinu eftir fimm ára leyfi á hann að öðru jöfnu forgang í allt að fimm ár frá þeim tíma að sambærilegri stöðu hjá hinu opinbera.“
Í lögunum er enn fremur tekið fram að ef alþingismaður gegnir starfi hjá ríki eða ríkisstofnun með þingmennsku skal hann þá njóta launa fyrir það starf samkvæmt mati viðkomandi ráðuneytis, þó aldrei hærra en 50 prósent.
Lilja var fyrst kjörin á þing 29. október í fyrra en kom inn á svið stjórnmálanna síðastliðið vor og tók við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði sagt af sér sem forsætisráðherra, í kjölfar uppljóstrunar Panamaskjalanna, og Sigurður Ingi síðan myndaði nýja ríkisstjórn undir hans forystu í kjölfarið.