Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur skipað tvo starfshópa sem hefur verið falið að vinna að útfærslu úrbóta vegna ábendinga sem fram komu í skýrslu starfshóps um umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu Íslendinga á aflandssvæðum. Annar hópurinn fjallar um umfang og áhrif skattundanskota og skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap, ásamt því að gera tillögur um hvernig megi minnka svarta hagkerfið. Hinum hópnum er falið að fjalla um þann hluta skýrslunnar sem sneri að milliverðlagningu, þar með talið faktúrufölsun. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Þar segir einnig að um sé að ræða fyrstu áfanga í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar gegn skattundanskotum og skattsvikum. „Önnur atriði úr skýrslu starfshópsins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum eru enn til skoðunar í ráðuneytinu.“
Kjarninn spurði sérstaklega um hvort til stæði að skoða ábendingar sem fram komu í skýrslunni sem snúa að fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“ Í svarið frá ráðuneytinu segir að þetta sé eitt þeirra atriða sem enn sé til skoðunar í ráðuneytinu.
Hægt er að lesa fréttaskýringu Kjarnans um skýrsluna hér.
Hægt er að lesa umfjöllun Kjarnans um skort á skattalöggjöf um aflandseignir hér.