Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að styðja fyrirhugað ríkisstjórnarfrumvarp um jafnlaunavottun. Þetta kemur fram í samtali við hann á mbl.is. Brynjar er annar þingmaður flokksins sem segist ekki ætla að styðja frumvarpið, en auk hans hefur Óli Björn Kárson sagst ekki ætla að styðja frumvarpið. Þá lýsti Sigríður Andersen dómsmálaráðherra einnig yfir efasemdum um kynbundinn launamun og jafnlaunavottun í grein í síðustu viku.
„Ég held að þetta sé bara vanhugsað og menn séu að gefa sér rangar forsendur,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is. Hann segist ekki munu styðja frumvarpið. Ef fara eigi í svona mikið inngrip í rekstur fyrirtækja sé lágmark að fyrir liggi án nokkurs vafa að raunverulegt vandamál sé fyrir hendi. „Það er auðvitað meginforsendan ef ætlunin er að fara út í svona inngrip að vandamál sem ætlunin er að leysa sé örugglega til staðar. Það er alveg frumforsendan....Þetta er bara einhver vitleysa. Ég vona að menn endurskoði þetta.“
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, mun leggja frumvarpið um jafnlaunavottun fram á þingi í vor fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið er í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og kveðið er á um það í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Í Silfrinu á RÚV í gær hvatti Þorsteinn til þess að þingmenn biðu eftir frumvarpinu og tækju þá afstöðu. „Allar rannsóknir sýna þennan launamun og að gliðni í sundur með kynjunum eftir því sem líður á starfsaldur þeirra,“ sagði hann í þættinum, og að með frumvarpinu vilji hann varpa ábyrgðinni á launamun yfir á stjórnendur í fyrirtækjum.
Jafnlaunavottun var eitt helsta baráttumál Viðreisnar fyrir kosningar, og flokkurinn hét því að frumvarp um slíka vottun yrði forgangsmál. Eftir að slitnaði upp úr fyrstu tilraun núverandi ríkisstjórnarflokka til að mynda ríkisstjórn greindi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, frá því að lögfesting jafnlaunavottunar hafi ekki hlotið mikinn hljómgrunn meðal Sjálfstæðismanna í viðræðum. „Því er ekki að leyna að þetta jafnréttismál hlaut ekki mikinn hljómgrunn í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn um helgina ekki frekar en sjávarútvegsmálin.“