Endurskipulagning á útgáfu Fréttatímans stendur yfir og ekki er ljóst hver framtíð hans verður. Þetta segir Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri og útgefandi blaðsins, í stöðuuppfærslu á Facebook.
Fyrir skemmstu var sett í loftið tilraun til að breyta varanlega grunni Fréttatímans, með því að efna til stofnunar vettvangs sem ber nafnið Frjáls fjölmiðlun. Þeir sem ákveða að gerast stofnfélagar að vettvangnum er boðið að greiða fyrir rekstrargrundvöll Fréttatímans, sem er fríblað sem kemur út tvisvar í viku. Í stöðuuppfærslunni segir Gunnar Smári að þar til framtíð Fréttatímans verði ljós muni Frjáls fjölmiðlun hins vegar ekki innheimta framlög frá stofnfélögum, en um 500 manns hafa þegar skráð sig í félagsskapinn. „Það verður ekki gert fyrr en félagið verður formlega stofnað og ljóst orðið að framlag frá því muni byggja upp öfluga ritstjórn á blaði sem auglýsingamarkaðurinn tryggir mikla útbreiðslu. Ef þið viljið láta á þetta reyna ættuð þið að skrá ykkur sem stofnfélaga strax í dag. Ef stofnfélagar verða nógu margir og stuðningur Frjálsrar fjölmiðlunar nógu mikill mun Fréttatíminn eflast og styrkjast. Ef okkur tekst ekki að tryggja framtíð Fréttatímans mun ekkert verða að stofnun Frjálsrar fjölmiðlunar og engin framlög verða innheimt. Það er því engin hætta á að framlög fólks nýtist ekki til góðra verka.“
Nýir eigendur keyptu allt hlutafé í móðurfélagi Fréttatímans í nóvember 2015. Gunnar Smári leiddi þann hóp en með voru fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurður Gísli Pálmason. Auk þess var Valdimar Birgisson áfram í eigendahópnum. Tilkynnt var í síðasta mánuði að Árni og Hallbjörn hefðu selt sinn hlut í útgáfufélaginu til annarra hluthafa. Eftir viðskiptin voru hluthafarnir þrír: þeir Gunnar Smári, Sigurður Gísli og Valdimar.
Fréttatíminn fjölgaði vikulegum útgáfudögum sínum úr einum í þrjá í skrefum á síðasta ári. Þeim var síðan aftur fækkað niður í tvo í janúar 2017.