Stóru tryggingafélög landsins, Sjóvá, VÍS og TM, munu samtals greiða hluthöfum sínum 5,1 milljarð króna í arð vegna afkomu síðasta árs. Þetta er tekið saman í Fréttablaðinu í dag.
Samanlagður hagnaður þessara þriggja félaga var 6,7 milljarðar króna.
Sjóvá hagnaðist um 2.690 milljónir króna í fyrra, sem er fjórum sinnum betri niðurstaða en árið á undan. Þá var hagnaðurinn 657 milljónir. Til stendur að greiða nær allan hagnaðinn, eða 2.600 milljónir, í arð til hluthafa.
TM hagnaðist um 2.597 milljónir í fyrra, sem er 230 milljónum minni hagnaður en árið á undan. Stjórnendur þar vilja greiða 1.500 milljónir króna í arð.
VÍS hagnaðist um 1.459 milljónir í fyrra, sem er 617 milljónum minna en í fyrra. Arðgreiðslur þar á bæ eru áætlaðar 1.023 milljónir króna.
Arðgreiðslurnar eru talsvert hógværari en í fyrra. Þá áætlaði VÍS að greiða hluthöfum sínum fimm milljarða í arð, sem var rúmlega tvöfaldur hagnaður félagsins fyrir árið. Sjóvá ætlaði að greiða 3,1 milljarð í arð og TM 1,5 milljarð. Áformin voru harlega gagnrýnd og á endanum lækkuðu bæði Sjóvá og VÍS arðgreiðslur sínar. Sjóvá greiddi 657 milljónir og VÍS 2,1 milljarð.