Konur eru 39 prósent forstöðumanna hjá stofnunum ríkisins. Hlutfallið hefur hækkað úr 37 prósentum í fyrra og 29 prósentum árið 2009. Þetta kemur fram í fréttabréfi stjórnenda ríkisstofnana, sem kom út í vikunni.
Forstöðumenn hjá ríkinu voru 154 í janúar á þessu ári, og hafði fækkað um tvo á einu ári. Það skýrist af því að Hafrannsókna- og Veiðimálastofnun sameinuðust í eina stofnun og Lögregluskóli ríkisins var lagður niður. Körlum fækkaði um fjóra og konum fjölgaði um tvær.
Konur eru nú samtals 60 talsins meðal 154 forstöðumanna hjá ríkinu. Allar stofnanir ríkisins eru meðtaldar í kynjabókhaldinu, að undanskildum stofnunum utan framkvæmdavaldsins, Alþingi, stofnunum þess og dómstólum.
Forstöðumönnum hefur fækkað úr 207 árið 2009 í 154 á þessu ári.
Þegar kynjahlutföllin eru skoðuð eftir ráðuneytum sést að jöfnust eru þau undir forsætisráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í forsætisráðuneytinu er hlutfall kvenna sem forstöðumanna 50% og í menntamálaráðuneytinu 48%. Í velferðarráðuneytinu er hlutfallið 41%.
Í innanríkisráðuneytinu er hlutfall kvenna 39%, í atvinnuvegaráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu 27% og hjá fjármálaráðuneytinu 23%. Í utanríkisráðuneytinu er hlutfall kvenna 0%, en eini forstöðumaðurinn undir því ráðuneyti er ráðuneytisstjórinn, sem er karl.