Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra óskar sjómönnum, útgerðarmönnum og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til hamingju með nýja kjarasamninga í milli sjómanna og útgerðarmanna. Samningarnir voru undirritaðir í húsakynnum ríkissáttasemjara í nótt eftir um það bil tveggja mánaða langt verkfall.
Verkfallinu hefur hins vegar ekki enn verið aflýst því forystumenn Sjómannafélags Íslands vilja að félagsmenn fái tækifæri til þess að kynna sér og greiða atkvæði um samninginn áður en haldið verður aftur til veiða.
„Það eru frábærar fréttir að samningar hafi tekist,“ skrifar Benedikt á Facebook-síðu sína í morgun. „[E]kki síst að ríkið hafi ekki þurft að koma að samningunum. Þorgerður Katrín stóð sig eins og hetja, en það er enginn vafi á því að hennar afstaða markar tímamót í deilum á vinnumarkaði. Samningar eiga að vera á kostnað vinnuveitenda en ekki ríkisins. Til hamingju sjómenn, útgerðarmenn og Þorgerður!“
Mikill þrýstingur var á stjórnvöld frá bæði sjómönnum og útgerðarmönnum um að veita sjómönnum skattaafslátt á dagpeninga. Ráðamenn höfðu hins vegar ítrekað hafnað því að slíkt væri möguleiki. Þorgerður Katrín lagði til málamiðlunartillögu við báða aðila kjaradeilunnar í gærkvöldi, en hún gekk of skammt að mati deiluaðila. Þess vegna var þrýstingurinn enn meiri á að samningar myndu takast í nótt, enda var það tilfinning manna að annars myndi ríkið setja lög á verkfallið.