Svanhildur Konráðsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Hörpu. Svanhildur er nú sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar en hún mun taka við starfi forstjóra Hörpu þann 1. maí næstkomandi.
Svanhildur hefur setið í stjórn Hörpu frá árinu 2012, en tekið er fram að hún hafi sagt sig frá öllu sem snéri að ráðningu nýs forstjóra áður en starfið var auglýst. Hún hefur komið að undirbúningi tónlistar- og ráðstefnu húss í Reykjavík allt frá árinu 2004, fyrst sem fulltrúi borgarinnar í Austurhöfn ehf. og svo í félögum sem sáu um byggingu og undirbúning reksturs Hörpu.
Capacent sá um ráðningarferlið, en 38 sóttu um. Það var samdóma álit ráðgjafa Capacent og stjórnar Hörpu að Svanhildur hefði yfirburða þekkingu og reynslu sem myndi nýtast vel í starfi forstjóra Hörpu, og að hún uppfyllti best umsækjenda skilyrði auglýsingarinnar.
Starf forstjóra Hörpu var auglýst í upphafi árs þegar Halldór Guðmundsson, sem hefur verið forstjóri frá árinu 2012, sagði upp störfum og tók að sér verkefni erlendis.